Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hefur klárað Ásmundarsal en upplýsir ekki um niðurstöðu

24.06.2021 - 14:24
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Ákærusvið lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur afgreitt Ásmundarsalar-málið svokallaða og liggur fyrir niðurstaða. Lögreglan telur sig hins vegar ekki geta upplýst „um afgreiðslu einstakra mála,“ segir í skriflegu svari frá Maríu Káradóttur, aðstoðarsaksóknara á ákærusviði lögreglunnar. Fjölmiðlar fengu fyrst veður af málinu þegar lögreglan greindi frá því í dagbókarfærslu á aðfangadag. Tekið var fram að meðal gesta í samkvæminu hefði verið „einn háttvirtur ráðherra í ríkisstjórn Íslands.“

Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, vildi ekki tjá sig um málið heldur vísaði á ákærusvið lögreglunnar.

Fréttastofa hefur ekki fengið svör við frekari spurningum um hvort málið hafi verið afgreitt með sekt eða það fellt niður. Aðalheiður Magnúsdóttir, sem á Ásmundarsal ásamt eiginmanni sínum Sigurbirni Þorkelssyni, vildi ekki tjá sig um málið við fréttastofu. Hugsanlega yrði send út yfirlýsing síðar.

Fram kom í dagbókarfærslu lögreglunnar að töluverð ölvun hefði verið í samkvæminu og að enginn hefði verið með andlitsgrímu fyrir andliti. Að sögn lögreglumanna voru fjarlægðartakmörk nær hvergi virt og aðeins þrír sprittbrúsar sjáanlegir í salnum. Meðal þess sem stuðst var við í rannsókn á meintu sóttvarnabroti staðarins voru upptökur úr búkmyndavélum lögreglumanna. 

Athygli fjölmiðla beindist helst að því hver ráðherrann hefði verið í samkvæminu. Það reyndist vera Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra. Hann sagðist í viðtali við Kastljós ekki getað skrifað upp á að hann hefði hegðað sér gáleysislega með því að mæta á „sölusýningu á Þorláksmessu,“ eins og hann orðaði það.  Hann gekkst þó við því að hann hefði átt að taka betur eftir aðstæðum.

Í febrúar greindi RÚV svo frá því að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, hefði í tvígang hringt í Höllu Bergþóru Björnsdóttur á aðfangadag. Hún sagðist ekki hafa verið að skipta sér af rannsókn málsins heldur aðeins verið að spyrja um upplýsingagjöf lögreglu. Lögreglustjórinn sagðist telja að dómsmálaráðherra hefði ekki verið að skipta sér af rannsókn sakamáls.

Samkvæmt fyrirmælum ríkissaksóknara um sektargreiðslur vegna brota á sóttvarnareglum er hægt að sekta skipuleggjendur um 250 til 500 þúsunda króna.  Ef tveggja metra reglan hefur ekki verið tryggð getur sektin numið frá 100 til 500 þúsunda króna og ef reglur um grímunotkun eru brotnar getur sektin numið frá 100 til 500 þúsunda króna.