Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Benedikt biður Jón Steindór afsökunar

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Benedikt Jóhannesson, fyrrum ráðherra og formaður Viðreisnar, hefur sett fram afsökunarbeiðni til Jóns Steindórs Valdimarssonar í stöðufærslu á Facebook-síðu sinni. Hún kemur í kjölfar orða Jóns Steindórs á sama vettvangi þar sem hann harmar ummæli Benedikts um störf uppstillingarnefndar Viðreisnar.

Í stöðufærslu sinni segir Benedikt: „Í samtali við mbl.is fyrr í vikunni nefndi ég Jón Steindór Valdimarsson og færslu hans á lista Viðreisnar, úr Suðvesturkjördæmi í Reykjavík Norður. Ummæli mín voru án alls samráðs við Jón og í óþökk hans.“

Í framhaldinu tekur Benedikt undir orð Jóns Steindórs um að þeir hafi lengi fylgst að í stjórnmálum og ber honum þar vel söguna.

„Jón Steindór er drengur góður og við höfum lengi barist fyrir sama málstað. Ég hef beðið hann afsökunar persónulega á ummælum mínum um hann og geri það hér með einnig opinberlega,“ segir Benedikt ennfremur.