Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

13 kílómetrar, 400.000 fermetrar af malbiki og 50 menn

Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / Skjáskot
Breikkun Hringvegarins á milli Hveragerðis og Selfoss gengur vel, en þar vinna um 50 manns við að leggja um 400 þúsund fermetrar af malbiki. Gott tíðarfar gæti flýtt fyrir að hægt verði að aka fyrstu hluta vegkaflans.

Breikkun Hringvegarins á milli Hveragerðis og Selfoss gengur vel, en þar vinna um 50 manns við að leggja um 400 þúsund rúmmetra af malbiki. Gott tíðarfar gæti flýtt fyrir að hægt verði að aka fyrstu hluta vegkaflans.

Þetta er ein stærsta framkvæmd sem Vegagerðin vinnur að núna. Samtals um 13 kílómetrar og á leiðinni eru fjórar brýr. Áætluð verklok eru haustið 2023 og eftir það verða samgöngur greiðari og umferðaröryggi mun aukast. 

„Framkvæmdin felst í því að leggja hérna tveir plús tveir veg sem verður sjö kílómetrar,“ segir Jón Heiðar Gestsson verkefnastjóri hjá Vegagerðinni. „En það verður gengið frá yfirborðinu tveir plús einn þannig að það er hægt að breyta honum seinna. Þannig að það eru sjö kílómetrar af þeim vegi og síðan eru um sex kílómetrar í öðrum vegum hérna, Ölfusvegi og vegi við Biskupstungnabraut.“

Áætlað er að verkið muni kosta rúma fimm milljarða. Íslenskir aðalverktakar sjá um framkvæmdina sem hófst í apríl í fyrra og hefur staðið yfir síðan þá. 

„Og núna, 15 mánuðum síðan, er verkið á áætlun. Og vel það, hefur aðeins gengið hraðar fyrir sig en áætlað var.“

Hluti vegarins liggur um mýrlendi og því þarf að fergja veginn. Það er gert með því að leggja ofan á hann rúmlega tveggja metra þykkt farg þar til vegurinn hættir að síga. „Núna erum við að byrja að fjarlægja fargið undir Ingólfsfjalli og getum þá farið í þessa alvöru endanlegu vegagerð austast á vegkaflanum næst Selfossi,“ segir Jón Heiðar.

Við verkið vinna að jafnaði um 50 manns, aðallega tækjamenn og smiðir í brúarsmíði og í stóra framkvæmd þarf mikið efni. „Þetta eru um 400 þúsund fermetrar af malbiki og um 500 þúsund rúmmetrar af fyllingarefni og fergingarefni. 3.500 rúmmetrar af steypu og 550 tonn af járni í brýrnar.“

Þessu til viðbótar eru lagðar lagnir meðfram  veglagningunni; lagnir vatnsveitna á svæðinu, auk veitulagna RARIK og lagna Mílu.

Ekki liggur fyrir hvenær hægt verður að taka fyrstu hluta vegarins í notkun. „En verkið gengur vel þarna austast á Selfossi og við verðum bara að sjá til hvernig það þróast. Ef tíðarfarið verður eins og það er núna, þá er spurning hvað gerist,“ segir Jón Heiðar.