Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

WOW air búið að sækja um flugrekstrarleyfi

23.06.2021 - 08:50
Mynd með færslu
 Mynd: Rúv / Wiki Commons - Samsett mynd
Flugfélagið WOW air hefur sótt um flugrekstrarleyfi til Samgöngustofu. Ögmundur Gíslason flugrekstrarfræðingur, sem starfar fyrir Michele Ballarin eiganda WOW, segir að fullur ásetningur sé til þess að endurreisa hið fallna félag, að því er Fréttablaðið segir frá.

WOW air varð gjaldþrota og hætti öllum rekstri að morgni dags 28. mars 2019. Síðan hafa reglulega borist fregnir af því frá eiganda þrotabúsins, Michele Ballarin, að endurreisn félagssins sé í farvatninu.

Nú virðist aftur á móti skriður kominn á málið með téðri umsókn um flugrekstrarleyfi. Ögmundur sótti um slíkt leyfi fyrir WOW air árið 2013 og tók ferlið þá rúmlega sex mánuði. Hann býst að það taki þrjá mánuði að leggja inn öll gögn.

Þessar fregnir af endurreisn WOW koma á svipuðum tíma og flugfélagið Play er að hefja starfsemi. Fyrsta flug þess félags er á morgun, fimmtudag. Ögmundur segir þó samkeppni við Play litlu skipta hvað WOW air varðar. „Það er ekki atriði hvort Play gangi vel eða ekki,“ segir hann.

 

Skráð nafn félagsins er Háutindar ehf. Áðurnefnd Michele Ballarin er skráð framkvæmdastjóri og stjórnarformaður þess, með 49 prósenta hlut. Málsefni ehf. er skráð fyrir 33 prósenta hlut og Tangar ehf. fyrir 19 prósentum.