Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

„Vissi ekki að mér myndi finnast Alþingi skemmtilegt“

23.06.2021 - 17:09
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Lýðræði, júdó og eldgosið á Reykjanesi eru meðal viðfangsefna Vísindaskóla unga fólksins sem fer nú fram í Háskólanum á Akureyri. Nemandi segir það hafa komið sér á óvart að störf Alþingis væru skemmtileg fyrir 12 ára krakka.

Hver dagur einstakur

Vísindaskóli unga fólksins er nú haldinn í sjöunda sinn í Háskólanum á Akureyri. Í skólanum sem er ætlaður fyrir ellefu til þrettán ára krakka er boðið upp á hin ýmsu námskeið. Sigrún Stefánsdóttir, skólastjóri Vísindaskólans segir að hvern dag í skólanum einstakan.

Meirihluti nemenda  í ár strákar

„Hingað koma í eina viku um 80 krakkar og í fyrsta skipti í þessi sjö áru eru miklu fleiri strákar, sem er eiginlega algjörlega öfugt við Háskólann vegna þess að þar eru 75-80 prósent konur. Þannig að í Vísindaskólanum er þessu öðruvísi háttað. Þau koma víða við og hver dagur er þétt setin þannig að þau fara frekar þreytt heim á kvöldin,“ segir Sigrún. 

Þannig að það er eitthvað fyrir alla hérna?

„Það er eitthvað fyrir alla og við viljum gera þetta skemmtilegt því þetta er sumarfríið þeirra þannig að þetta á ekki að vera leiðinlegur skóli.“

Alþingi kom skemmtilega á óvart

Emil Ragnar Reykjalín Ólafsson, nemandi í Vísindaskólanum segir námskeið um Alþingi hafa komið skemmtilega á óvart. „Við erum að læra um Alþingi og lög og eitthvað þannig. Tímarnir kallast, Lengi lifi Ísland.“

Hefur þú gaman af þessu?

„Já já þetta er alveg fínt sko, ég vissi ekki að mér myndi finnast Alþingi svona skemmtilegt og lög, fyrir einhvern sem er tólf ára.“

Nemendur framtíðarinnar

Sigrún segist sjá marga framtíðar nemendur Háskólans á Akureyri í hópnum. „Já hvort ég geri, ég held að þetta sé fín leið fyrir Háskólann til að kynna það sem hér fer fram og þeir sem voru fyrstu árin, þeir eru þegar komnir í skólann hingað.“