Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Vanlíðan, óöryggi, einelti og áreitni í sundkennslu

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Umboðsmaður barna mælist til þess í bréfi til menntamálaráðherra að fyrirkomulag sundkennslu í grunnskólum landsins verði tekið til skoðunar með tilliti til skoðana grunnskólanema á því málefni. Í frétt á vef umboðsmanns segir að fjölbreyttur hópur barna um allt land hafi kallað eftir því að gerð verði breyting á fyrirkomulagi sundkennslu í efstu bekkjum grunnskóla, kröfur minnkaðar og kennslan gerð valkvæð að einhverju leyti.

Kröfurnar „langt umfram það sem nauðsynlegt má telja“

Samkvæmt viðmiðum í aðalnámsskrá eiga grunnskólanemar að geta sýnt leikni og synt viðstöðulaust bringusund, baksund, skriðsund, flugsund og kafsund þegar þeir útskrifast úr tíunda bekk, og geta troðið marvaðann að auki.

Í bréfi umboðsmanns til menntamálaráðherra segir að sumir nemendur eigi í erfiðleikum með að uppfylla þessar miklu kröfur og að ljóst að þær séu „langt umfram það sem nauðsynlegt má telja til að nemendur geti stundað sund sem líkamsrækt á öruggan hátt að loknum grunnskóla."

Sundkennsla getur valdið vanlíðan og ýtt undir einelti 

Í aðalnámsskrá segir að „aukin sundfærni styrki sjálfsmynd og auki sjálfsöryggi einstaklingsins." Samtöl umboðsmanns barna við skjólstæðinga sína hafi hins vegar leitt í ljós að ákveðinn hópur nemenda upplifi óöryggi og vanlíðan í sundtímum, þar sem þau eigi erfitt með að uppfylla þær miklu kröfur sem gerðar eru til þeirra.

Þá virðist sem sundkennsla geti ýtt undir einelti og áreitni. Í aðalnámsskrá sé því lýst að „auðvelt sé að tengja umræðu um kynímyndir, einelti og ofbeldi við sundkennslu, en í framkvæmd virðist vera lítið um slíka umræðu. Hins vegar hafa margir nemendur í eldri bekkjum grunnskóla, og þá sérstaklega hinsegin börn, lýst upplifun af einelti og áreitni í sundkennslu."

Vilji margra standi því til þess að sundkennsla verði gerð valkvæð í elstu bekkjum grunnskóla, svo fremi sem nemendur sýni fram á viðunandi sundfærni í stöðuprófi.

Að öllu þessu samanteknu hvetur Salvör Nordal, umboðsmaður barna, Lilju Dögg Alfreðsdóttur menntamálaráðherra, til að að taka fyrirkomulag sundkennslu í grunnskólum til skoðunar og „leita með virkum hætti eftir skoðunum grunnskólanema á því málefni eins og ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins [...] gera kröfu um."

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV