Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Vandi ráðherranefndar að mestu vegna nýs kerfis

23.06.2021 - 14:12
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Engir fjármunir töpuðust vegna alvarlegra vandamála við fjármálastjórn Norrænu ráðherranefndarinnar. Frá þessu var greint á fréttamannafundi með framkvæmdastjóra og fjármálastjóra hennar í morgun.

Áður hafði verið greint frá því á vef Ráðherranefndarinnar að hún eigi við verulegan vanda að etja í tengslum við fjármála- og verkefnastjórn. Hann má að mestu rekja til þess að skipt var um viðskiptakerfi. Það reyndist flókið en var gert í of miklum flýti.

Afgreiðsla ársreikninga nefndarinnar fyrir síðasta ár tafðist og ekki tókst að skila þeim til Ríkisendurskoðunar Danmerkur fyrr en í júní. Ríkisendurskoðunin fer nú yfir þá og er skýrslu að vænta í haust, samkvæmt upplýsingum frá nefndinni. Engum hefur verið sagt upp vegna málsins. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir