Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Það gutlar vel á honum núna“ - góður gangur í gosinu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist
„Það gutlar vel á honum núna,“ segir Sigurdís Björg Jónasdóttir náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, aðspurð um ganginn í gosinu í Geldingadölum í nótt. Með „honum“ vísar Sigurdís í stóra gíginn sem mestallt hraun rennur úr þessa dagana. Sigurdís segir litla sem enga strókavirkni að sjá en nokkuð mikið og jafnt hraunrennsli er frá gígnum, þar sem glóandi kvikan kraumar og bullar af slíkum krafti að ljómann hefur lagt upp af honum klukkustundum saman. Mikil gasmengun er við gosstöðvarnar.

En þótt rennslið og gutlið sé mikið til að sjá segir Sigurdís erfitt að fullyrða nokkuð um það, hvort það hafi aukist að einhverju marki frá því sem verið hefur. Veðuraðstæður gætu skýrt það að einhverju leyti að gosið virðist með öflugra móti nú, því skyggni hefur verið með besta móti í nótt en var afleitt í fyrrinótt. Mælar sýna hins vegar engin merki um aukinn óróa eða aðra gosvirkni.

Hættulega mikil gasmengun við gosstöðvarnar

Gasmælir Veðurstofunnar sýnir aftur á móti mikla gasmengun á útsýnisstað við gosstöðvarnar, yfir 14.000 míkrógrömm af brennisteinsoxíði í rúmmetra lofts, sem er mun meira en verið hefur. Þetta gæti mögulega bent til aukinnar gosvirkni, en skýringuna gæti allt eins verið að finna í veðuraðstæðum. Og þótt mengunin sé hættulega mikil við gosstöðvarnar, segir Sigurdís, þá stafar fólki engin hætta af henni í byggð við þær aðstæður sem nú eru uppi.