Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Stjörnumenn æfir eftir umdeilt sigurmark KA

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú

Stjörnumenn æfir eftir umdeilt sigurmark KA

23.06.2021 - 22:42
Stjörnumenn voru æfir í leikslok þegar að liðið datt út úr bikarkeppninni eftir umdeild sigurmark KA í uppbótartíma. Keflavík sló svo út Breiðablik með tveimur mörkum í framleningu og 3. deildar lið KFS vann 1.deildar lið Víkings Ó örugglega í Vestmannaeyjum.

32-liða úrslitin í Mjólkurbikar karla í fótbolta héldu áfram í kvöld og eins og oft áður í bikarnum var boðið upp á óvænt úrslit og dramatík. Sjö lið úr efstu deild kepptu í kvöld og þau mættust innbyrðis í tveimur leikjum. 

Í Garðabæ tóku heimamenn í Stjörnunni á móti KA. Stjarnan skoraði fyrsta mark leiksins strax á fimmtu mínútu en það var dæmt af vegna rangstöðu. Fimm mínútum síðar skoraði Stjarnan í annað sinn en aftur fór flaggið á loft og markið dæmt af vegna rangstöðu. Stjarnan hélt áfram að þjarma að KA og áttu stangarskot stuttu síðar. Norðanmenn unnu sig hægt og rólega inn í leikinn en staðan var enn markalaus í hálfleik. 

Á 57. mínútu kom loksins löglegt mark hjá Stjörnunni. Tristan Freyr Ingólfsson átti þá fína fyrirgjöf og Emil Atlason hoppaði hæst allra og skallaði boltann í netið. Bæði lið fengu fín færi til að skora í kjölfarið en það var ekki fyrr en fjórum mínútum fyrir leikslok sem að næsta mark kom. Þar var á ferð Sebastiaan Brebels fyrir KA. Hrannar Björn Steingrímsson komst þá í gott færi en Haraldur Björnsson varði vel, boltinn barst hins vegar til Brebels sem átti ekki í vandræðum með að skora. 

Afar umdeilt atvik átti sér stað undir lok uppbótartíma. Boltinn virtist þá fara út af vellinum eftir misskilning í vörn Stjörnunnar. Sveinn Margeir Hauksson hljóp upp að endalínu og var á undan Haraldi Björnssyni og náði að tækla boltann fyrir markið þar sem Elfar Árni Aðalsteinsson renndi honum í autt markið. Dómarinn flautaði leikinn nánast strax af og Stjörnumenn voru æfir af reiði enda leit út fyrir að boltinn væri allur farinn út af áður en Sveinn Margeir renndi honum fyrir markið. Markið fékk þó að standa og KA komnir áfram í 16-liða úrslitin. 

Tvö mörk í framlengdum leik í Keflavík

Lokaleikur kvöldsins fór fram í Keflavík þar sem heimamenn tóku á móti Breiðablik. Gestirnir byrjuðu leikinn mun betur og hefðu auðveldlega getað komist yfir í fyrri hálfleik en þeir náðu ekki að nýta fjölmörg góð færi og því var markalaust í hálfleik. Mörkin komu heldur ekki í seinni hálfleik og því þurfti að grípa til framlengingar. Framlengingin var afar róleg allt fram að 113. mínútu þegar Kian Williams átti frábæra sendingu fyrir markið þar sem Helgi Þór Jónsson mætti á ferðinni og afgreiddi boltann snyrtilega í netið og kom Keflavík yfir. Þegar örfáar sekúndur voru eftir af framlengingunni fékk Breiðablik horn og settu alla sína leikmenn fram. Keflvíkingar náðu hins vegar boltanum eftir hornið og brunuðu upp í skyndisókn sem endaði með marki frá Davíð Snæ Jóhannssyni og hann gulltryggði því 2-0 sigur Keflavíkur. 

Sigur í fyrsta leik Ólafs

Í Hafnarfirði stýrði Ólafur Jóhannesson FH gegn Njarðvík í sínum fyrsta leik eftir að hafa verið ráðinn þjálfari liðsins. Endurkoma Ólafs byrjaði þó ekki vel því gestirnir náðu verðskuldað forystunni á 25. mínútu með marki frá Bergþóri Inga Smárasyni. Tíu mínútum síðar jafnaði FH með marki frá Birni Daníel Sverrissyni og rétt fyrir hálfleik kom Steven Lennon FH yfir. FH-ingar gerðu svo út um leikinn undir lok leiks með mörkum frá Matthíasi Vilhjálmssyni og Guðmundi Kristjánssyni. 

Botnliðið ekki í vandræðum með toppliðið

Á Akranesi mættust gömul stórveldi þegar ÍA tók á móti Fram. Staða liðanna er ólík þar sem ÍA situr á botni efstu deildar á meðan að Fram er á toppi næst efstu deildar. Fyrsta markið kom strax á 5. mínútu þegar Morten Beck kom ÍA yfir. Fimm mínútum síðar fengu heimamenn víti og úr vítinu skoraði Steinar Þorsteinsson og ÍA því komið í 2-0 eftir rúmlega tíu mínútur. Þriðja markið kom svo tíu mínútum síðar og staðan því orðin 3-0 fyrir ÍA eftir rétt rúmlega 20. mínútna leik. Mörkin urðu þó ekki fleiri og ÍA er komið áfram í 16-liða úrslitin á meðan að Fram getur einbeitt sér að deildinni.

HK-sigur í Kórnum

Í Kórnum í Kópavogi tóku heimamenn í HK á móti Grótti. Það var þó lítil gestrisni hjá HK-ingum sem komust yfir á 8. mínútu með marki Stefan Ljubicic. En staðan var 1-0 fyrir HK í hálfleik. Eftir klukkutíma leik var komið að næsta marki og nú var það Martin Rauschenberg sem kom HK í 2-0. Pétur Theodór Árnason hleypti smá spennu í leikin þegar hann skoraði fyrir Gróttu á 80. mínútu en það dugði ekki til og HK því komið áfram.

Önnur úrslit í bikarnum:
Augnablik - Fjölnir: 1-4
Afturelding - Vestri: 1-2
KFS - Víkingur Ó: 4-2
ÍR - ÍBV: 3-0