Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Páfagarður skiptir sér af ítalska þinginu

Mynd með færslu
 Mynd:
Frumvarp til laga á Ítalíu um bann við mismunun og hvatningu til ofbeldis gegn hinsegin fólki og fötluðum leggst illa í kaþólsku kirkjuna.

Páfagarður hefur sent formlega orðsendingu til öldungadeildar ítalska þingsins þar sem lýst er áhyggjum af því að kaþólikkar kunni að verða lögsóttir fyrir að tjá skoðanir sínar á hinsegin málefnum. Orðsendingin er sögð án fordæma.

Mario Draghi, forsætisráðherra Ítalíu, gerði í dag lítið úr kvörtun Páfagarðs. Sagði hann að ítalska þingið væri fullvalda frjálst að taka málið fyrir. Þá benti Draghi á að Ítalía væri veraldlegt ríki.

Páfagarður heldur því hins vegar fram að frumvarpið brjóti gegn samkomulagi kirkjunnar við ítalska ríkið, concordat, með því að takmarka tjáningarfrelsi og trúfrelsi.

Frumvarpið var samþykkt í neðri deild ítalska þingsins í nóvember, en það hefur mætt harðri andstöðu Bandalags Matteo Salvini og annarra hægrimanna í öldungadeildinni.

Ríkisstjórn Ítalíu, furðuleg samsuða flokka hvaðanæva af pólitíska rófinu,  tekur ekki afstöðu til frumvarpsins enda skoðanir skiptar meðal flokkanna sem að henni standa.

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV