Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Mótvindur alla 318 kílómetrana

Mynd: Einar Bárðarson / Einar Bárðarson
Handhjólreiðamaðurinn Arnar Helgi Lárusson, formaður samtaka endurhæfðra mænuskaddaðra, lagði í gærkvöldi af stað í 400 kílómetra langa hjólaferð milli Hafnar í Hornafirði og Selfoss. Arnar sagði í samtali við fréttastofu þegar hann var staddur undir Eyjafjöllum að ferðin hafi gengið vel.

„Það var erfitt í nótt, það var svo mikill kuldi að ég eiginlega bara fraus. Ég þurfti að stoppa á Kirkjubæjarklaustri í þrjá klukkutíma til að ná upp hita. Að öðru leiti hefur gengið æðislega,“ sagði Arnar.

Arnar hélt í ferðina með það að markmiði að minna á mikilvægi hreyfingar fyrir hreyfihamlaða. „Það er ósanngjarnt að hreyfihamlað fólk þarf að kaupa búnað býrum dómum sem aðrir gætu jafnvel fengið keyptan í Hagkaup á hundrað þúsund kall,“ sagði Arnar sem gerði ráð fyrir því að koma í mark á Selfossi um klukkan 18 í kvöld.

Hann sagði þá að veðrið hafi sett óvænt strik í reikninginn.

„Ég ákvað að fara þessa leið því ég hafði heyrt að það væri alltaf austanátt en það er búin að vera vestanátt allan tímann. Ég átti kannski von á meðvindi en ekki mótvindi alla leið,“ sagði Arnar eftir að hafa hjólað 318 kílómetra um Suðurlandið.

 

Andri Magnús Eysteinsson