Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Kaupa í Icelandair fyrir átta milljarða

23.06.2021 - 23:39
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr - RÚV
Alþjóðlegi fjárfestingarsjóðurinn Bain Capital hefur náð samkomulagi við Icelandair um kaup á tæplega 5,7 milljarða nýrra hluta í félaginu að andvirði tæplega 8,1 milljarðs króna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair.

Að viðskiptum loknum mun sjóðurinn eiga 16,6% hlut í félaginu og verða langstærsti hluthafinn í fyrirtækinu. Næststærstur er Brú lífeyrissjóður en með hlutafjáraukningunni fer hlutur hans úr 4,77% í 3,98%.

Kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki hluthafafundar, en hluthafar þurfa að falla frá forgangsrétti sínum að nýjum hlutum í félaginu. Halda á fundinn 23. júlí. 

Samkvæmt samkomulaginu mun Bain Capital fá fulltrúa í stjórn félagsins og mun Úlfar Steindórsson þá stíga til hliðar sem stjórnarmaður til að rýma fyrir fulltrúa sjóðsins.

Hlutafjáraukningin er til þess fallin að styrkja fjárhagsstöðu félagsins. Haft er eftir Boga Nils Bogasyni forstjóra í tilkynningu að gleðiefni sé að fá inn í félagið leiðandi fjárfesta á heimsvísu með mikla þekkingu á fluggeiranum.

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV