Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Íslenska lambið fer víða en mismikið fæst fyrir

23.06.2021 - 19:23
Mynd: ruv / ruv
Þriðjungur íslensks lambakjöts er fluttur úr landi, þar á meðal til Bretlands, Rússlands og Ghana. Kjötið er selt fyrir töluvert lægra verð en það er selt á innanlands. Framkvæmdastjóri markaðsstofunnar Icelandic Lamb segir að uppistaðan í útflutningnum sé kjöt sem Íslendingar kæri sig síður um.

Landsmenn vilji síður síður

Síðustu fimm ár hafa verið flutt út 14 þúsund tonn af lamba- eða kindakjöti til hátt í þrjátíu landa, mest til Bretlands, Noregs, Færeyja og Spánar en einnig til Ómans, Japans, Rússlands og Ghana. Árlega hefur útflutningurinn numið að jafnaði 3000 tonnum, en í fyrra dróst hann verulega saman, um tæp 40%. Framleiðslan hefur farið minnkandi síðastliðin ár, enda fækkar fé í landinu. „Megnið af útflutningi hefur verið skilgreindur sem aukaafurðir frá framleiðslunni, þá má nefna lambasíður, afskurð og fitu og annað sem fellur til og þarf að selja úr landi til þess að við eigum nóg af hryggjum og lærum fyrir íslenska markaðinn,“ segir Hafliði Halldórsson, framkvæmdastjóri Markaðsstofunnar Icelandic lamb. Þannig sé til dæmis verið að selja mikið magn til Bretlands, fyrir um 500 krónur kílóið, kjöt sem meðal annars er notað í Döner-kebab, það séu þá þessar aukaafurðir, síður og frampartar. Hafliði telur ekki hægt að fá jafngott verð fyrir þetta hér og á Bretlandi.

Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Mynd með færslu
 Mynd: ruv

Segir minna um það en áður að kjötið sé selt of ódýrt

Í fyrra fengust að meðaltali tæpar 700 krónur fyrir kílóið af útfluttu kjöti, þá eru ýmsir flokkar undir. Mest af útflutningnum féll í tollflokkinn Frosið - annað, meðalverðið þar 574 krónur á kílóið. Meðalverð á útfluttum frosnum hrygg síðustu fimm ár var 966 krónur og á læri 1021 króna, það er þá fyrir opinber gjöld. Hér þarf oft að greiða meira fyrir þessar vörur. 

Sumum finnst kannski skjóta skökku við að ríkið niðurgreiði framleiðslu á kjöti sem svo er flutt úr landi og jafnvel selt töluvert ódýrara en hér. Hafliði segir þetta réttmæta ábendingu. „Ef maður horfir aðeins til baka, tekur tíu til fimmtán ár, þá held ég að það sé því miður raunin í einhverjum tilvikum en ég er nú að vonast til þess að sá tími sé liðinn.“ Þessi útflutningur sé hverfandi í dag. Hafliði bendir líka á að stór hluti landbúnaðarvara sem fluttar séu inn til Íslands hafi verið niðurgreiddar annars staðar. 

Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Hafliði Halldórsson

Lítið selt á dýra markaði

Síðustu ár hefur verið horfið frá markmiðum um að bæta hag bænda með stórauknum útflutningi. Hafliði telur að útflutningurinn ætti að ná jafnvægi í kringum 20%. Hann vonar að afurðastöðvarnar fari að líta í auknum mæli til hagstæðari markaða eins og Japans, Danmerkur og Þýskalands, en markaðsstofan vinnur með fyrirtækjum í þessum löndum. Í Danmörku fáist jafnvel margfalt hærra verð fyrir frosið kjöt en á Íslandi. Í dag er staðan sú að mikill minnihluti útflutts kjöts ratar á hina dýru markaði, Hafliði áætlar að það eigi við um einn tíunda hluta þess.