Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Henti gaman að því hvernig Ballarin eignaðist WOW

23.06.2021 - 18:31
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bandarískir fjölmiðlar hafa sýnt bandarísku athafnakonunni Michele Roosevelt Edwards eða Michele Ballarin áhuga eftir að Washington Post greindi frá því í vikunni að hún hefði ýtt undir „Italygate“-samsæriskenninguna. Rachel Maddow, sem stýrir einum vinsælasta fréttaþættinum á MSNBC, rakti sögu Ballarin og hvernig hún eignaðist íslenska flugfélagið WOW.

Samsæriskenningin „Italygate“ þykir ein sú klikkaðasta sem komið hefur fram um meint kosningasvindl í forsetakosningunum vestanhafs. 

Starfsmenn ítalsks hergagnaframleiðanda í samstarfi við háttsetta yfirmenn innan leyniþjónustu Bandaríkjanna eru sagðir hafa beitt gervihnöttum í eigu hersins til að breyta Trump-atkvæðum yfir í Biden-atkvæði. 

Rachel Maddow,  sem stýrir Rachel Maddow Show á MSNBC, fór í nokkrum smáatriðum yfir fréttaflutning af Ballarin síðustu daga og spilaði brot úr viðtali Kveiks við athafnakonuna.

Maddow telur fréttamenn Kveiks hafa strax kveikt á perunni um að ekki væri allt með felldu þegar þeir hittu hana. Þeim hafi meira að segja gengið illa að sannreyna hver ætti sveitasetrið North Wales sem Ballerin sagði vera sitt. Frétt Kveiks má sjá hér.

Það hafi svo ekki verið fyrr en Washington Post fór á stúfana í tengslum við fréttaflutning af „Italygate“ að í ljós kom að setrið var í eigu ekkju.  Og hún hafði enga hugmynd um hvað Ballarin væri að gera í húsinu. 

Maddow lét ekki staðar numið þar heldur fór einnig yfir sögu WOW air. Það hefði verið stofnað af Skúla Mogensen og hann hefði fengið prest og vaxtaræktarfrömuð til að blessa flugfélagið. „Og presturinn og vaxtaræktarfrömuðurinn voru ein og sama manneskjan. Þarna komu líka við sögu demantar og skæri.“

Maddow virðist hafa nokkuð gaman af WOW og rifjar upp fyrstu herferð flugfélagsins þar sem lagið úr kvikmyndinni Top Gun er í aðalhlutverki. Auglýsingin skartar gítarleikara með myndarlega hárkollu og fólki í einkennisfatnaði flugfélagsins. „Ef þetta fær þig ekki til að ferðast með flugfélagi þá veit ég ekki hvað gerir það? Hvernig er hægt að gera þetta betur?“ 

Netið gleymir engu og auglýsingin er aðgengileg á YouTube.

Maddow fór síðan yfir það hvernig Ballarin, sem heitir í dag Michele Roosevelt Edwards, hefði keypt WOW air, aðeins sex mánuðum eftir að það varð gjaldþrota. „Hún sagðist færa Íslendingum frábærar fréttir, að hún væri að hleypa nýju lífi í WOW air. Hún hélt blaðamannafund á hóteli í september 2019 og lýsti því yfir að WOW myndi hefja áætlunarflug milli Washington og Íslands mánuði seinna.“

Þessi yfirlýsing Ballarin hefði að mati Maddow átt kveikja á einhverjum viðvörunarbjöllum.

Þá hefði það einnig átt að vekja grunsemdir að engin virtist vita nákvæmlega hvert raunverulegt nafn Michele væri. Íslenskir fjölmiðlar hefðu ýmist kallað hana Michele Roosevelt Edwards eða Michele Ballarin. 

Maddow þykir þetta allt býsna skondið en segir Íslendingum til varnar að ferðaþjónustan skipti miklu máli fyrir efnahag landsins. Í morgun bárust svo þær fréttir að WOW air væri búið að sækja um flugrekstrarleyfi hjá Samgöngustofu. 

Lesa má innslag Maddow hér og sjá það hér að neðan.