„Hef aldrei verið hræddur við að deyja“

Mynd: GH / Ruv.is

„Hef aldrei verið hræddur við að deyja“

23.06.2021 - 09:15

Höfundar

„Það var einhver sem vildi ekki að ég færi,“ segir Berent Karl Hafsteinsson sem komst í hann krappann þegar hann lenti í skelfilegu mótorhjólaslysi, tvítugur að aldri. Hann vaknaði úr dái nokkrum vikum síðar með fjörutíu og sjö brotin bein.

Berent Karl Hafsteinsson, oftast kallaður Benni Kalli, varð fimmtugur í vikunni. Hann kveðst með eindæmum lánssamur að hafa náð þeim aldri enda hefur hann sannarlega komist í hann krappann og oftar en einu sinni verið nær dauða en lífi. Árið 1992, þegar hann var um tvítugt, lenti Berent í alvarlegu mótorhjólaslysi. Hann var þá í svokallaðri spyrnu við félaga sína á hjólinu þegar hann missti stjórn og hafnaði á grjótgarði úti í sjó. „Ég vil ekki segja þér hvað ég var að keyra hratt, það var svo mikil geðveiki. Ég man sjálfur ekki marga mánuði fyrir, og marga mánuði eftir slys,“ segir Berent sem rifjaði slysið upp í viðtali við Mannlega þáttinn á Rás 1.

Sumir fara í gegnum erfiðari skóla en aðrir

Berent var sóttur með þyrlu á slysstað og fluttur á gjörgæslu þar sem hann rankaði við sér þremur vikum síðar. Í slysinu braut hann meðal annars 47 bein í líkamanum, af 206. „Það er vafasamt Íslandsmet en sýnir hve ótrúlega heppinn ég er, miðað við að hafa brotið úr níu hryggjarliðum og brákað tvo hálsliði,“ segir Benni. „Það er einhver sem vildi ekki að ég færi.“

Hann hefur glímt við ýmsar þrautir í lífinu og minnir sig reglulega á viskukorn sem móðir hans kenndi honum. „Mamma sagði alltaf að lífið væri skóli. Sumir fara í gegnum erfiðari skóla en aðrir, og þetta er minn skóli. Þá er um að gera að reyna að nýta hann eins vel og hægt er.“

„Það var oft sagt við mig að ég myndi drepa mig, ég var svo klikkaður“

Lærdóminn úr sínum lífsins skóla miðlar Berent meðal annars með því að fara í elstu bekki grunn- og í framhaldsskóla landsins, þar sem hann segir sína sögu og svarar spurningum sem brenna á vörum ungmenna. „Ég hefði sjálfur viljað hitta einhvern sem er ekki að skafa utan af hlutunum. Ég er bara að tala út frá minni reynslu, sem ég hef aflað mér í gegnum árin og segi bara: Ef þú ert endalaust að leika þér að eldi - þá brennurðu fyrr eða síðar. Spurningin er bara: Hvað brennurðu illa?“ segir hann. Sjálfur fékk hann oft að heyra að hann léki sér full glæfralega á brúninni. „Það var oft sagt við mig að ég myndi drepa mig, ég var svo klikkaður.“

Krakkarnir spyrja hvort hann hafi viljað gefast upp

Krakkarnir hlýða áhugasöm á fyrirlestur Berents og oft rignir yfir hann spurningum. Hann svarar þeim öllum, jafnvel þó tíminn sé liðinn því hann telur mikilvægt að krakkarnir fái svör. „Um leið og einn þorir að spyrja opnast flóðgáttin. Þetta skiptir svo miklu máli, að þau fái svala forvitninni.“ Spurningar krakkanna eru allskyns. „Hefurðu einhvern tíma hugsað um að fyrirfara þér? Hefur þér liðið það illa andlega að þú hefur viljað gefast upp?“ Þetta eru á meðal spurninga sem Berent hefur fengið og öllum svarar hann samviskusamlega.

Hefur ekki verið verkjalaus í þrjá áratugi

Hann þvertekur fyrir að hafa verið óheppinn þegar hann lenti í slysinu, hann kennir eigin kæruleysi og glannaskap um. „Það var oft sagt við mig að það væri einhver genagalli í hausnum á mér, ég hef aldrei verið hræddur við að deyja,“ segir Berent. Að hans mati er enda margt til verra en að láta lífið, þó hann ítreki að það sé bara hans mat. „Ég hef séð fólk það illa farið að ég myndi persónulega ekki vilja lifa svoleiðis. En svo verður maður bara að halda áfram og gera gott úr hlutunum eins og hægt er,“ segir hann.

Í dag, þrjátíu árum eftir slysið, snýst lífið enn að mestu leyti um að halda sér gangandi. Hann er í sjúkraþjálfun, fer mikið í Össur sem útvegar honum gervifætur en einnig hefur hann verið í lyfjameðferð á Landspítalanum. „Ég hef aldrei verið verkjalaus frá því ég slasaði mig, það hefur í raun bara versnað með árunum og aldrinum.“

Heldur í húmorinn og gerir grín að sjálfum sér

Berent hefur í fyrirlestrum sínum ekki síst lagt áherslu á andlega erfiðleika sem fylgja slysum sem þessu, verkjum en líka lífinu sjálfu. „Ég segi við fólk: Það líður öllum illa í lífinu og það fer enginn í gegnum lygnan sjó. Lífið er brekkur upp og niður og þú verður að finna viljann og trúna til að komast upp í dalnum.“ Honum finnst mikilvægt að sýna að það er hægt að komast langt á viljanum, jákvæðninni og húmornum sem hann gleymir ekki. „Ég geri óspart grín að sjálfum mér og vil meina að ég væri ekkert á lífi ef ég væri ekki nett kexaður og bara frekar jákvæður,“ segir hann sposkur að lokum. „Eins og fegurðardrottningarnar segja: Brosa í gegnum tárin.“

Rætt var við Berent Karl Hafsteinsson í Mannlega þættinum á Rás 1.

Tengdar fréttir

Myndlist

Fæddist inn í sorg og tók að sér hlutverk fíflsins

Menningarefni

„Ég á henni svo mikið að þakka“