Síðustu eintökin af Apple Daily voru prentuð í kvöld, ein milljón talsins sem verður að teljast nokkuð mikið þar sem íbúar Hong Kong eru sjö og hálf milljón. Yfirleitt er blaðið prentað í 80.000 eintökum.
Af öllum fjölmiðlum í Hong Kong, þá var umfjöllun Apple Daily um Kommúnistaflokkinn í Kína, hvað gagnrýnust. Þá bar ritstjórnarstefnan sterkan keim af stuðningi við lýðræðissinna, sem efndu til fjölmennra mótmæla gegn vaxandi afskiptum kínverskra stjórnvalda sumarið 2019.
Dyggur lesandi blaðsins í Hong Kong, sem ekki vill láta nafns síns getið, sagði í viðtali í dag að hún þakki Apple Daily fyrir að hafa varið fjölmiðlafrelsi af óttaleysi í öll þessi ár. „Blaðið sagði sannleikann og greindi heiminum frá óréttlæti. Kærar þakkir, Apple Daily.“
Á dögunum gerðu 500 lögreglumenn húsleit á skrifstofum blaðsins. Eigandinn og stjórnendur voru handteknir og eignir frystar. Vegna frystingarinnar og af ótta um öryggi starfsmanna, sem eru eitt þúsund talsins, var ákveðið að hætta útgáfunni.
Ný öryggislög tóku gildi í Hong Kong í fyrra og það er á þeim sem afskiptin byggjast. Stjórnendum blaðsins er gefið að sök að hafa hvatt erlend ríki til að beita refsiaðgerðum gegn Kína. Slíkt er bannað samkvæmt lögunum.
Hong Kong hefur hrapað á lista samtakanna Blaðamanna án landamæra um fjölmiðlafrelsi, var árið 2002 í átjánda sæti, en er nú númer áttatíu.