Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Andleg vanlíðan og streita algeng meðal dýralækna

23.06.2021 - 09:47
Mynd með færslu
 Mynd: Daníel Þór - Kringlan
Andleg vanlíðan og streita er algeng meðal dýralækna hér á landi samkvæmt nýrri könnun sem Dýralæknafélag Íslands gerði meðal félagsmanna sinna. Stóraukið gæludýrahald á landsvísu, óvægin umræða á samfélagsmiðlum, óraunhæfar kröfur viðskiptavina, einmanaleiki, samúðarþreyta og mannekla eru meðal helstu orsakavalda.

Álag á dýralækna aukist mikið

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Dýralæknafélagi Íslands. Þar kemur fram að helmingur svarenda í könnuninni taldi álag í starfi vera við þolmörk (8–10) en minnihluti taldi álagið lítið eða í meðallagi (29%). Álag í starfi virðist hafa aukist síðustu misseri en 68% sögðu álagið hafa aukist, þar af 59% mikið eða mjög mikið. Einn af hverjum fimm (21%) sögðust hafa skipt um starf vegna álags á lífsleiðinni. Allnokkrir hættu störfum alfarið.

Aukin gæludýraeign og óraunhæfar kröfur

Helstu ástæður aukins álags eru sagðar vera aukin gæludýraeign landsmanna og auknar og óraunhæfar væntingar og kröfur viðskiptavina. Framfarir í faginu hafa jafnframt aukið þjónustuframboð dýralækna til muna og krafan um aukna tæknivæðingu og endurmenntun verður sífellt háværari. Nokkur mannekla virðist vera í faginu og þá sérstaklega á landsbyggðinni en hafa ber í huga að nýlega var umdæmum héraðsdýralækna Matvælastofnunar fækkað úr fimm í fjögur.

Álag, einmanaleiki og óvægin umræða

Í könnun Dýralæknafélagsins sögðust 75% svarenda finna fyrir streitueinkennum vegna mikils álags í starfi, þar af 45% bæði fyrir líkamlegum og andlegum einkennum. Helstu ástæður eru sagðar vera álag, einmanaleiki starfsins, skortur á stuðningsneti og tengslum við samstarfsfélaga, samúðarþreyta og, síðast en ekki síst, óvægin og ósanngjörn umræða á samfélagsmiðlum um dýralækna. Eftirlitsdýralæknar hafa þá orðið fyrir því að vegið sé að sálrænu og líkamlegu öryggi þeirra í eftirlitsferðum í sveitum landsins þegar kannað er hvort settum lögum og reglum, t.d. um dýravelferð og aðra þætti, sé framfylgt.

Könnunin var gerð í samstarfi við fyrirtækið Outcome dagana 7.– 14. júní og var svarhlutfall 60%.