Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Allt að tveggja tíma bið í Leifsstöð eftir sýnatöku

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Þrjátíu og ein flugvél lendir á Keflavíkurflugvelli á morgun og hafa þær ekki verið fleiri frá því kórónuveirufaraldurinn braust út. Farþegar geta þurft að bíða í allt að tvo tíma eftir því að vottorð þeirra séu skoðuð og þeir sendir í skimun. Aðstoðaryfirlögregluþjónn segir að farþegar sem lagt hafi langa ferð að baki geti orðið pirraðir að þurfa að bíða lengi eftir afgreiðslu.

„Eins og staðan er núna þá gengur þetta vel en það náttúrulega fjölgar farþegum, álagið eykst og biðraðir lengjast. Svo er spurning hvað fólk hefur mikið þol í það,“ segir Arngrímur Guðmundsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í flugstöðvardeild Lögreglustjórans á Suðurnesjum. 

Sóttvarnalæknir sagði í hádegisfréttum að hann efaðist um að unnt verði að halda uppi jafnmiklum sóttvörnum á landamærunum í sumar þar sem þær séu mannaflsfrekar og viðbúið að ferðamönnum fjölgi. Til skoðunar sé að hætta að taka veirupróf hjá þeim sem framvísa bólusetningarvottorði. Arngrímur segir að biðraðir geti verið býsna langar. 

„Það er 31 flug á morgun sem er þá stærsti dagurinn frá því COVID byrjaði og væntanlega rúmlega 4000 farþegar að koma til landsins. Þannig að það má búast við því að það verði einhver biðtími inni í flugstöðinni i röðum áður en þau komast í sýnatöku,“ segir Arngrímur.

Veistu hvað fólk þarf stundum að bíða lengi til þess að komast að afgreiðsluborðinu?

„Ég er að skjóta aðeins út í loftið en ég get ímyndað mér að þeir sem hafa þurft að bíða lengst hafi þurft að bíða upp undir tvo tíma,“ segir Arngrímur.

Verður fólk pirrað?

„Ja, við reynum að upplýsa fólk eins vel og hægt er. En jú, auðvitað verða einhverjir pirraðir eins og þú orðaðir það og eru að koma úr löngu flugi og þurfa að standa hér í flugstöðinni í tvo tíma til að bíða eftir að komast í sýnatöku. Já, já, það gerist alveg,“ segir Arngrímur.

 

 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV