Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Af brautinni alveg í hvínandi hvelli. Vélin er komin“

23.06.2021 - 18:34
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Litlu mátti muna að De Havilland Dash 8-400 vél frá Flugfélagi Íslands rækist í sandara þegar hún var að koma inn til lendingar á Egilsstaðaflugvelli í febrúar á síðasta ári. Flugradíómanni á flugvellinum gafst ekki tími til að vara flugmennina við sandaranum og flaug vélin því yfir hann. Rannsóknarnefnd samgönguslysa áætlar að minnsta fjarlægð flugvélarinnar frá sandaranum hafi verið um tíu metrar.

Fram kemur í skýrslu nefndarinnar að þegar atvikið varð hafi verið stórhríð og skafrenningur og nánast ekkert skyggni. Sá sem var á sandaranum hafði tveggja mánaða reynslu sem flugvallarstarfsmaður.

Snjóhreinsun og bremsumælingar voru í gangi á Egilsstaðaflugvelli og hlutverk sandarans var að dreifa sandi á flugbraut til þess að bæta bremsuskilyrði.

Samskiptaleysi varð síðan til þess að sandarinn fór út á flugbrautina án þess að óska eftir leyfi frá flugradíómanni eins og honum bar að gera samkvæmt vinnureglu.

Þegar flugradíómaðurinn tók eftir því að sandarinn var komin nánast alveg út á flugbrautina um svipað leyti og flugvélin var að koma inn til lendingar þreif hann í talstöðina og kallaði „Af brautinni alveg í hvínandi hvelli. Vélin er komin. Af brautinni.“

Starfsmaðurinn á sandaranum heyrði hins vegar ekki kallið en vaktstjóri lét hann vita og sagði honum að drífa sig af brautinni.  Hann áttaði sig þá á því að hann ætti ekki að vera þarna og sagðist hafa verið nánast alveg kominn til baka þegar hann heyrði í flugvélinni.

Samkvæmt skýrslu rannsóknarnefndar flaug flugvélin yfir sandarann í lendingunni og var minnsta fjarlægð milli þeirra um tíu metrar.

Flugmennirnir létu flugradíómanninn vita að þeir hefðu séð trukk á miðri brautinni að snúa við og hann sagðist hafa reynt að koma honum til baka en það ekki tekist.

Við rannsókn kom í ljós að starfsmaðurinn á sandaranum hafði ekki heyrt nein samskipti á svokallaðri bílabylgju sem notuð er til samskipta við flugturn vegna leyfa um akstur á flugbrautum.

Þau samskipti fara um rás 2 í fastri talstöð á sandaranum. Í skýrslunni kemur reyndar fram að þegar sandarinn sé settur í gangi kveiki talstöðin á sér á rás 1 og því þurfi að stilla hana yfir rás 2. Sérstakur miði er á talstöðinni til að minna á þetta. 

Í skýrslunni segir enn fremur að starfsmaðurinn hafi ekki greint samstarfsmönnum sínum frá því að hann heyrði engin samskipti á bylgjulengdinni. Er því talið að rekja megi atvikið til þess að starfsmaðurinn á sandaranum hafi verið í vandræðum með samskipti.

Verklagi Isavia innanlands hefur verið breytt eftir þetta.

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV