Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Viðskipti í Íslandsbanka fyrir rúma fjóra milljarða

22.06.2021 - 11:26
Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Íslandsbanki var skráður á aðalmarkað Kauphallarinnar, Nasdaq Iceland, við hátíðlega athöfn í höfuðstöðvum bankans í morgun. Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, hringdi bjöllunni með Magnús Harðarson, forstjóra Kauphallarinnar, sér við hlið. Þar með er búið að skrá 35% af hlutum félagsins og geta nú viðskipti á þeim hafist. Íslandsbanki er þriðja stærsta félagið á markaðnum og er hann tuttugasta og fjórða félagið í Kauphöllinni, að sögn Magnúsar.

Hlutir í bankanum eru nú þegar á uppleið eftir skráninguna en hlutabréf hafa rokið upp um 20%. Útboðsgengið var 79 krónur en var komið upp í 95 krónur eftir skráninguna. Viðskipti í bankanum eru nú komin yfir fjóra milljarða króna.

Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, segir hlutafjárútboð Íslandsbanka, sem fór fram dagana 5.-15.júní, vera hið stærsta í Íslandssögunni. Keypt voru hlutabréf fyrir rúmlega 55 milljarða. 

Níföld umframeftirspurn í útboðinu

„Viðbrögðin við útboðinu voru náttúrulega glæsileg. Það var níföld umframeftirspurn. Ég átti von á góðum viðtökum en að það skyldi vera níföld eftirspurn kom mér á óvart,“ segir Magnús. 

Hann segist vera ánægður með áherslurnar í útboðinu en þær hafi verið að laða að erlenda fjárfesta og almenning. Önnur skráð félög eigi eflaust eftir að njóta góðs af skráningu Íslandsbanka og þar með skrái sig vonandi fleiri á hlutabréfamarkaðinn. 

Mjög ánægð með þátttökuna

Birna segir skráninguna mikilvægt skref og að stefna bankans sé skýr. Hún er einnig, eins og Magnús, mjög ánægð með þátttökuna í útboðinu. 

„Ég fann mikinn áhuga þegar við vorum með fjárfestakynningarnar. Fjöldinn kom á óvart, en ég var svo ánægð með þessa breiðu þátttöku. Það er frábært að vera að fá 24 þúsund nýja hluthafa, stóra og smáa, innlenda sem erlenda, “ segir Birna. 

Ekki hefur verið mikið um konur í stjórnunarstöðum fyrirtækja í Kauphöllinni en Birna er nú ein af þeim. Hún vonast til að þeim taki að fjölga. 

Enn eru 65% bankans í ríkiseigu

Enn er 65% hlutur í Íslandsbanka í ríkiseigu. Bjarni Benediktsson hefur sagst vilja halda áfram að losa um eignarhald ríkisins yfir bankanum á næsta ári ef markaðsaðstæður leyfa.