Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Tilkynningum um kynferðisbrot hefur fjölgað á árinu

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
14 prósentum fleiri kynferðisbrot hafa verið tilkynnt til Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á þessu ári heldur en að meðaltali á sama tímabili síðustu þrjú ár. Þetta segir Ævar Pálmi Pálmason, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar. Á síðustu sex mánuðum hafa að meðaltali verið tilkynnt 44 kynferðisbrot á mánuði og í maí voru tilkynningarnar 48.

Ævar bendir á að tilkynningar berist ekki endilega í þeim mánuði sem þau eru framin og af þeim 48 tilkynningum sem lögreglunni hefur borist í maí hafi 25 verið framin í mánuðinum. 

Erfitt sé að segja til um það hvort metoo-bylgjan hafi haft áhrif á það hvort brot séu tilkynnt. „Það tekur alltaf tíma að sjá svoleiðis áhrif hjá lögreglunni, það kemur ekki strax fram í tölunum,“ segir hann. 

Í maí bárust lögreglunni 75 tilkynningar um heimilisofbeldi á höfuðborgarsvæðinu, álíka jafn margar og síðustu mánuði á undan. Þó er ljóst að það sem af er ári hafa 21 prósentum fleiri tilkynningar borist um heimilisofbeldi en að meðaltali á sama tímabili síðustu þrjú ár, en á síðustu fimm mánuðum ársins voru tilkynningarnar 378.