Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Ná fram „launahagræðingu en ekki úr umslagi launþega“

22.06.2021 - 11:37
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Samsett mynd
Kynningarfundur vegna hlutafjárútboðs Play var í morgun en flugfélagið stefnir á að fá allt að 4,3 milljarða aukningu á hlutafé. Birgir Jónsson, forstjóri flugfélagsins, sem kynnti starfsemina sagði ákveðins misskilnings hafa gætt um kjör starfsmanna félagsins og kvaðst feginn að þeirri dulúð væri aflétt.

Við erum að ná fram launahagræðingu án þess að það komi úr umslagi launþega, sagði Birgir. „Það er misskilningur að starfsfólk okkar sé á skammarlega lágum launum.“

Grunnlaun flugliða á bilinu 372 og 424 þúsund eftir skatt

Fram kemur í kynningunni að grunnlaun nýrra flugliða um borð séu milli 352 og 454 þúsund krónur. Eftir skatta og önnur gjöld eru laun á bilinu 372-521 þúsund fyrir 67 blokktíma í vinnu eftir reynslu.

Hagæðingunni sé meðal annars náð fram með því að keyra ekki starfsfólkið til Keflavíkur og spara þann kostnað og að sleppa launatengdum starfsaldursflokkum.

Birgir segir einn af lykilmælikvörðum félagsins vera fjöldi starfsmanna á hverja flugvél flotans. Stefnir flugfélagið að því að fara úr því að vera með þrjár vélar á upphafsári sínu í 15 véla flota árið 2025.

Á næsta ári verða þær sex og hefst Bandaríkjaflug í apríl.

Samkvæmt sviðsmynd framkvæmdastjóra fjármálasviðs félagsins, Þóru Eggertsdóttur, við núverandi aðstæður, verður EBITDA neikvæð á árinu upp á 10 milljónir Bandaríkjadala og fram á næsta ár. Tekjur félagsins á árinu er sagðar nema 25 milljónum Bandaríkjadala, um 3 milljörðum króna, en eiga að aukast um tæpar 150 milljónir dala á næsta ári og nema 509 milljónu dala 2025 en EBIThlutfall á að vaxa samhliða því í 14%.

Hlutafjárútboðið hefst á fimmtudag og verða boðnir út 221.906.800 hlut­ir að nafn­verði í formi nýrra hlutabréfa í Fly Play hf.

Tveir áskriftarmöguleikar eru í boði, í sitthvoru útboðinu, með þátttöku í áskriftarleið A og áskriftarleið B, sem eru ólíkar er varðar stærð áskrifta og úthlutun. Verð í áskriftarleið A er 18 kr./hlut og verð í áskriftarleið B verður innan verðbilsins 18-20 kr./hlut. 

Áætlunarflug félagsins hefst einnig á fimmtudag með jómfrúarflugi Airbus A321NEO til Stansted í London.