Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Hafði betur hjá Persónuvernd og fer fram á 75 milljónir

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
 Mynd: Energepic - Pexels
Fyrrverandi fjármálastjóri Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja hefur stefnt félaginu og fer fram á að það greiði honum 75 milljónir króna; tæpar 56 milljónir vegna vangoldinna launagreiðslna og lögfræðikostnaðar, 11 milljónir í skaðabætur vegna ólögmætrar uppsagnar og 8 milljónir í miskabætur.

Uppsögn í miðju veikindaleyfi

Í stefnu mannsins gegn félaginu, sem hann hefur lagt fram í Héraðsdómi Reykjavíkur, segir að hann hafi farið í tímabundið veikindaleyfi vegna ofbeldis og eineltis af hálfu framkvæmdastjóra félagsins. Honum hafi verið sagt upp í miðju veikindaleyfi og að í uppsagnarbréfi hafi verið látið að því liggja að ágreiningur og samstarfserfiðleikar væru ástæður uppsagnarinnar.

Höskuldur Þór Þórhallsson, lögmaður mannsins, segir að maðurinn hafi fyrst og fremst kvartað undan því að stjórnendur félagsins skyldu ekki koma málinu í viðeigandi farveg og látið undir höfuð leggjast að innleiða eineltisstefnu. Maðurinn sakar yfirmann sinn, framkvæmdastjóra og formann félagsins, um að hafa ráðist inn á skrifstofu sína með svívirðingum og ásökunum, sem flokkist ekki aðeins sem einelti heldur einnig ofbeldi. Yfirmaðurinn hafi hunsað ábendingar starfsmannsins um ofálag og ekki leyft honum að njóta lögbundins frís.

Máttu ekki breyta lykilorði og birta persónuupplýsingar

Fréttastofa fjallaði lauslega um málið í gær; um nýjan úrskurð Persónuverndar um að félagið, sem í fréttinni var nafnlaust, hefði ekki mátt breyta lykilorði starfsmanns á meðan hann var í veikindaleyfi. Persónuvernd úrskurðaði jafnframt að félagið hefði ekki mátt greina frá því á vefsíðu sinni að starfsmaðurinn væri í veikindaleyfi. 

Bæði starfsmaður og félagsmaður stéttarfélagsins

Maðurinn er í þeirri sérkennilegu stöðu að vera starfsmaður síns eigin stéttarfélags og, eins og lögmaður hans orðað það, hefur því þurft að standa í stappi við atvinnurekanda sinn án stéttarfélags. Hann heldur því fram að framkvæmdastjóri félagsins hafi brotið gegn starfsheiðri hans og valdið honum miska. Hann segist hafa þjáðst af áfallastreituröskun og fundið fyrir kvíða og þunglyndi vegna framkomu framkvæmdastjórans og í stefnunni skorar hann á fyrrum samstarfsfélaga sína að koma fyrir Héraðsdóm til að gefa vitnaskýrslur. 

Höskuldur segir einna athyglisverðast að eftir að maðurinn kvartaði undan ofbeldi og einelti á vinnustað hafi félagið sagst myndu greiða fyrir utanaðkomandi lögmannskostnað en svo aðeins viljað greiða lítinn hluta kostanaðarins þegar á hólminn var komið. Maðurinn hafi krafist þess að það stjórn félagsins legði fram fundargerðir en því hafi verið hafnað.

Þá segir Höskuldur að eineltið hafi haldið áfram eftir að maðurinn tilkynnti um það, sér í lagi með þeim brotum sem Persónuvernd hefur úrskurðað um: „Það er ánægjulegt að Persónuvernd hafi staðfest að það hafi verið brotið á manninum. Hann kvartaði yfir einelti og vildi að kvörtunin færi í farveg en þess í stað var tölvupóstinum hans lokað í miðju veikindaleyfi og honum ekki gert kleift að komast að sínum gögnum. Þá var greint frá því á vefsíðu félagsins að hann væri kominn í veikindaleyfi.“

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV