
Fujimori forsetaframbjóðandi sleppur við varðhald
Dómarinn brýndi fyrir Fujimori að fara að þeim kröfum sem reynslulausn hennar byggir á en hún á yfir höfði sér allt að 30 ára fangelsisdóm, verði hún sakfelld í málinu.
Hún er sökuð um að hafa þegið ólöglegar greiðslur í kosningasjóð úr hendi brasilíska stórfyritækisins Odebrecht fyrir forsetakosningarar árin 2011 og 2016, en hún tapaði naumlega í bæði skiptin.
Fujimori hefur ávallt neitað öllum ásökunum, hún sat í sextán mánaða varðhaldi vegna málsins en fékk lausn til reynslu í maí á síðasta ári.
Enn hefur ekki verið skorið endanlega úr um sigurvegara forsetakosninganna sem haldnar voru í landinu 6. júní síðastliðinn. Mjög mjótt var á munum með Fujimori og vinstri manninum Pedro Castillo.
Hún sakaði Castillo um svindl strax að kosningum yfirstöðnum og krafðist þess að atkvæði yrðu talin að nýju. Stuðningsmenn beggja frambjóðenda kölluðu eftir því um helgina að óvissu vegna niðurstöðu kosninganna yrði umsvifalaust eytt.
Keiko Fujimori er dóttir Alberto Fujimori sem var forseti Perú frá 1990 til 2000. Fujimori var síðar ákærður, dæmdur og fangelsaður fyrir spillingu og mannréttindabrot í stjórnartíð sinni.