Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Forstjóri og stjórnarmenn sæta rannsóknum

22.06.2021 - 12:36
Mynd með færslu
 Mynd: Haukur Holm - RÚV
Birgir Jónsson forstjóri Play og  María Rúnarsdóttir, stjórnarmaður félagsins eru bæði til rannsóknar hjá embætti skattrannsóknarstjóra. Þetta kemur fram í útboðsgögnum vegna komandi hlutafjárútboðs Play á fimmtudag þar sem gerð er grein fyrir álitamálum sem tengjast félaginu.

María vegna mögulegs skattalagabrots vegna vantalins tekjuskatts árin 2011 og 2012. Saksóknari hefur ekki gefið til kynna hvort haldið verði áfram með rannsóknina eða hún felld niður.

Þá er Skatturinn með opna rannsókn á máli Birgis frá 2018 varðandi fjármagnstekjur Birgis þegar hann gegndi stöðu forstjóra í Rúmeníu. Skatturinn heldur því fram að til tekna Birgis hafi komið 2013 eftir að Birgir hafði flutt lögheimili sitt aftur til Íslands. Málinu er ekki lokið af hálfu skattrannsóknarstjóra.

Einnig er vikið að stöðu Einars Arnar Ólafssonar í Skeljungsmálinu, en hann er með stöðu sakbornings ásamt fleirum í málinu sem er enn yfirstandandi vegna sölunnar á Skeljungi fyrir rúmum áratug síðan. Íslandsbanki kærði söluna til lögreglu árið 2016. Hann situr í stjórn Play.

Þá er fjallað um að Bogi Guðmundsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Play hafi, sem einn af upphaflegum fjárfestum í Play farið fram á að taka fyrirtækið til gjaldþrotaskipta. Sátt hafi náðst um málið og mun Play greiða tveimur fyrirtækjum sem tengjast Boga, ef viðunandi frammistaða félagsins næst, endurgreiðslu á fjármögnun í árdaga félagsins. Eru það smávægilegar greiðslur samanborið við núverandi fjárhagsstöðu félagsins, segir í útboðsgögnum.

Leiðrétt 12:50 Ranglega var farið með nafn Boga í upphaflegri frétt. Beðist er velvirðingar á þessu.