Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Fórnarkostnaður kvenna hærri“

Mynd: RÚV / Skjáskot
Fjórtán sinnum fleiri konur en karlar í stjórnendastöðum bera ábyrgð á heimilishaldi og kvenkyns stjórnendum finnst þær frekar þurfa að sanna sig. Karlar fá minni stuðning en konur til að samræma starf og fjölskyldulíf. Þetta sýna niðurstöður nýrrar rannsóknar. Þórey Vilhjálmsdóttir Proppé, einn aðstandenda rannsóknarinnar, segir að konur þurfi að fórna meiru til að verða stjórnendur en karlar.

 

Rannsóknin heitir Kynin og vinnustaðurinn og var gerð af Viðskiptaráði, Empower, Háskóla Íslands og Gallup.  Meðal þess sem spurt var um var hvernig heimilisábyrgð og umönnun væri skipt á heimilinu.  

2% karlkyns stjórnenda sögðust  bera aðalábyrgð þar en 29% kvenna. Munurinn er því fjórtánfaldur. Þrefalt fleiri konur en karlar í stjórnunarstöðum upplifa að hafa þurft að sanna sig meira en aðrir á vinnustað. Helmingi fleiri kvenstjórnendur en karlstjórnendur telja að dómgreind þeirra sé dregin í efa á vinnustað og það sama gildir um hlutfall þeirra karla og kvenna sem hafa upplifað að talað sé niður til þeirra í vinnunni.

„Það sem er kannski einna áhugaverðast er að það virðist vera meiri fórnarkostnaður fyrir konur að verða stjórnendur,“ segir Þórey. „Þær eru semsagt annars vegar að bera ábyrgð á heimilisstörfunum og svo er það líka þannig að í menningunni eru áskoranirnar erfiðari fyrir konur en karla. Þannig að þá er kannski ekki skrýtið að konur hugsi sig meira um að verða stjórnendur frekar en karlar.“

Meðal annarra niðurstaðna voru að þegar konur eru stjórnendur er líklegra að þær upplifi grófan talsmála og óviðeigandi brandara. 23% kvenna telja að horft hafi verið framhjá sér við framgang í starfi og 17% karla telja að svo hafi verið. Þá hafa fleiri karlar en konur hafa áhuga á að vera stjórnendur. Þórey segir að það komi ekki á óvart, vegna ábyrgðar á heimili aukist álag meira á konur en karla við að verða stjórnendur.

 

 

 

Hún segir að niðurstöðurnar rími við það sem aðrar rannsóknir hafi sýnt. Það sé áhugavert að fram komi í rannsókninni að karlar fái ekki jafn mikinn stuðning á vinnustað og konur við að samræma starf og einkalíf „Ef karlarnir fá ekki stuðning við að fá svigrúm til að sinna fjölskylduábyrgð þá bera konurnar frekar ábyrgð. Það verður síður til þess að þær verði stjórnendur þannig að þetta er allt hringrás. Þetta þarf allt að styðja við hvert annað,“ segir Þórey.