Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Flugfreyjufélagið krefst þess að Play geri kjarasamning

22.06.2021 - 15:59
Mynd með færslu
 Mynd: Haukur Holm - RÚV
Flugfreyjufélag Íslands krefst þess að flugfélagið Play gangi til viðræðna um kjarasamning flugfreyja og flugþjóna. Flugfélaginu hefur verið sent erindi þess efnis.

Flugfreyjufélag Íslands hefur sent flugfélaginu Play bréf þar sem gerð er krafa um viðræður um gerð kjarasamnings flugfreyja og flugþjóna hjá flugfélaginu við stéttarfélagið. Verði flugfélagið ekki við þessu erindi verður málið sent til ríkissáttasemjara.

Fyrsta farþegaflug flugfélagsins Play er frá Keflavík á fimmtudag. Guðlaug Líney Jóhannsdóttir formaður Flugfreyjufélags Íslands vonast eftir jákvæðum viðbrögðum frá forsvarsmönnum fyrirtækisins. Mikilvægt sé að semja um kjör flugfreyja og flugþjóna hjá nýja félaginu. Nýbúið sé að senda bréf þessa efnis til Play. Formaður Flugfreyjufélags Íslands er bjartsýnn um viðbrögð. Eitt skref verði tekið í einu varðandi aðgerðir. Guðlaug Líney vonast til að forsvarsmenn Play hitti fulltrúa Flugfreyjufélagsins sem fyrst.

 

 

Ólöf Rún Skúladóttir
Fréttastofa RÚV