Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Braut ekki lög með því að skoða vinalista á Facebook

22.06.2021 - 08:40
Mynd með færslu
 Mynd: CC0 - Pixabay
Persónuvernd hefur úrskurðað að atvinnurekandi hafi ekki brotið gegn persónuverndarlögum með því að skoða vinalista starfsmanns á Facebook og nefna það í vinnustaðagreiningu að hann hefði eytt samstarfsmanni sínum af Facebook.

Í vinnustaðagreiningu starfsmanns í fyrirtæki kom fram að samband hans við nokkra vinnufélaga sína væri stirt. Menn sem hefðu verið manninum ósammála hefðu fundið fyrir því í samskiptum sínum. Var meðal annars vísað til þess að maðurinn hefði hent samstarfsmanni út af vinalista sínum á Facebook.

Maðurinn kvartaði til Persónuverndar vegna þessa og taldi að um ólöglega vinnslu persónuupplýsinga væri að ræða.

Persónuvernd féllst ekki á þetta. Í úrskurði stofnunarinnar segir að almennt sé litið svo á að vinnsla vinnuveitanda á persónuupplýsingum um starfsmenn geti talist eðlilegur þáttur í starfsemi að því gefnu að reglum um meðalhóf sé fylgt.

Var það mat Persónuverndar að ekki hefði verið brotið gegn reglum í þessu tilfelli.

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV