Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Aðskilnaðarsinnum gefnar upp sakir

22.06.2021 - 17:21
epa09292729 A handout photo made available by the Prime Minister's Office shows Spanish Prime Minister, Pedro Sanchez (R), chatting with Deputy Prime Minister, Carmen Calvo (L), during the weekly cabinet meeting held at Moncloa Palace in Madrid, Spain, 22 June 2021. The Cabinet Meeting is expected to pass the pardon to Catalan imprisoned leaders that were condemned due to their role in the illegal referendum held back in 2017.  EPA-EFE/Borja Puig de la Bellaca HANDOUT MANDATORY CREDIT HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
Pedro Sanchez og Carmen Calvo aðstoðarforsætisráðherra á ríkisstjórnarfundi í dag. Mynd: EPA-EFE - Forsætisráðuneyti Spánar
Spænska stjórnin gaf í dag níu katalónskum leiðtogum aðskilnaðarsinna upp sakir. Þeir hlutu níu til þrettán ára fangelsisdóma þegar þeir lýstu yfir sjálfstæði Katalóníuhéraðs árið 2017. 

Ekki liggur fyrir hvenær níumenningarnir  losna úr fangelsi, en að sögn spænskra stjórnvalda er unnið að því að það verði gert sem fyrst. Fyrst þarf Spánarkonungur að fallast á sakaruppgjöfina og birta þarf samþykkt hennar í stjórnartíðindum landsins.

Að sögn Pedros Sanchez forsætisráðherra nær sakaruppgjöfin ekki til banns við því að níumenningarnir gegni opinberum embættum. Jafnframt er hún skilyrt því að þeir brjóti ekki af sér í ákveðinn tíma.

Ekki eru allir Spánverjar ánægðir með ákvörðun stjórnvalda um að gefa aðskilnaðarsinnunum upp sakir. Samkvæmt skoðanakönnun dagblaðsins El Mundo er 61 prósent landsmanna á móti því. Í Katalóníu snýst dæmið hins vegar við. Þar fagna 68 prósent íbúanna ákvörðun stjórnvalda í Madríd að því er kemur fram í könnun Ipsos. Hæstiréttur Spánar er andvígur því að sleppa níumenningunum. 

Stjórnarandstæðingar saka Pedro Sanchez forsætisráðherra um tækifærismennsku. Ákvörðunina megi rekja til stuðnings katalónskra aðskilnaðarsinna við minnihlutastjórn hans. 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV