
Ekki liggur fyrir hvenær níumenningarnir losna úr fangelsi, en að sögn spænskra stjórnvalda er unnið að því að það verði gert sem fyrst. Fyrst þarf Spánarkonungur að fallast á sakaruppgjöfina og birta þarf samþykkt hennar í stjórnartíðindum landsins.
Að sögn Pedros Sanchez forsætisráðherra nær sakaruppgjöfin ekki til banns við því að níumenningarnir gegni opinberum embættum. Jafnframt er hún skilyrt því að þeir brjóti ekki af sér í ákveðinn tíma.
Ekki eru allir Spánverjar ánægðir með ákvörðun stjórnvalda um að gefa aðskilnaðarsinnunum upp sakir. Samkvæmt skoðanakönnun dagblaðsins El Mundo er 61 prósent landsmanna á móti því. Í Katalóníu snýst dæmið hins vegar við. Þar fagna 68 prósent íbúanna ákvörðun stjórnvalda í Madríd að því er kemur fram í könnun Ipsos. Hæstiréttur Spánar er andvígur því að sleppa níumenningunum.
Stjórnarandstæðingar saka Pedro Sanchez forsætisráðherra um tækifærismennsku. Ákvörðunina megi rekja til stuðnings katalónskra aðskilnaðarsinna við minnihlutastjórn hans.