Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

125 götur fá endurnýjun og COVID hjálpaði til

Mynd: RÚV / Skjáskot
125 götur eða gatnahlutar í Reykjavík, um 23 kílómetrar, verða endurnýjaðir í sumar. Markmiðið er að vinna upp þann halla á viðhaldi sem varð til eftir hrun. Minni umferð vegna faraldursins hjálpar þar til.

Ámundi Brynjólfsson, skrifstofustjóri framkvæmda og viðhalds hjá Reykjavíkurborg, segir að umfang framkvæmdanna sé svipað og í fyrra. „Og við erum ennþá í þessu átaki sem var sett af stað 2017 til að vinna upp þann viðhaldshalla sem þá var til eftir hrun,“ segir Ámundi.

Hann segir að  frá árinu 2017 hafi um sjö og hálfum milljarði verið varið til malbikunarframkvæmda á götum borgarinnar, en þær eru samtals um 430 kílómetrar, eða sem jafngildir leiðinni frá Keflavík til Akureyrar. Og nú hillir undir lokaáfanga þessa átaks.  „Við erum að tala um að við séum að komast á endastað þannig að gatnakerfið í Reykjavík sé að verða, eins og við segjum, sjálfbært,“ segir Ámundi.

Með því er átt við að ekki þurfi að malbika meira en um 5% af gatnakerfinu á hverju ári. Það hjálpaði til að veðráttan var gatnakerfinu hagstæð í vetur og þá barst líka hjálp úr óvæntri átt - frá kórónuveirunni. „Sem afleiðing af COVID og þeim samgöngutakmörkunum sem þar giltu þá var umferð minni sem þýðir minna slit á götunum,“ segir Ámundi.