Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vilja að SÁÁ endurgreiði 134 milljónir

21.06.2021 - 22:05
Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd
Sjúkratryggingar Íslands hafa krafið SÁÁ um endurgreiðslu á 134 milljónum króna þar sem þjónusta hafi ekki verið í samræmi við gildandi samninga. Formaður SÁÁ telur að málið byggi á misskilningi og reiknar með því að krafan verði felld niður.

Eftirlitsdeild Sjúkratrygginga Íslands hefur verið með málið til skoðunar í marga mánuði en hlutverk deildarinnar er meðal annars að fylgjast með starfsemi þeirra sem þiggja greiðslur frá stofnuninni á grundvelli þjónustusamninga. Nýverið sendi deildin bréf á stjórn SÁÁ þar sem samtökin eru krafin um tugmilljóna endurgreiðslu vegna þess að þjónusta hafi ekki verið í samræmi við samninga.

Einar Hermannsson formaður SÁÁ kynnti stöðu málsins á aðalfundi samtakanna í kvöld.

„Okkur var svolítið brugðið þegar við fengum þetta bréf 4. júní. Þar kemur fram að á tímum Covid þar sem ekki var hægt að bjóða upp á staðþjónustu að þeir vilja að við endurgreiðum 30 milljónir vegna þess að við höfðum lokað frá október og fram í lok desember 2020 þar sem við gátum ekki boðið upp á staðþjónustu heldur vorum við með starfsmenn á staðnum sem hringdu svo í okkar skjólstæðinga. Svo kemur líka fram að þau segja að það sé ekki samningur í gildi varðandi símtöl og endurkrefja okkur um 37 milljónir vegna fjarþjónustunnar sem gera þá samtals 67 milljónir. En við höfnum þessum kröfum að sjálfsögðu þar sem við gátum ekki boðið upp á neitt annað úrræði en einmitt þetta. Margir aðrir heilbrigðsaðilar voru einmitt í sömu sporum og við,“ segir Einar.

Þá hafa Sjúktryggingar einnig krafist endurgreiðslu á 67 milljónum vegna ungmennadeildarinnar á Vogi.

„Þar erum við að þjónusta ungmenni 18 til 25 ára. Sjúkratryggingar vilja meina að við eigum eingöngu að þjónusta 18 til 20 ára,“ segir Einar.

Í heild hljóðar krafan því upp á rúmar 134 milljónir. Einar telur að málið byggi á misskilningi.

„Ég ber fullt traust til Maríu Heimisdóttur forstjóra SÍ og Sjúkratrygginga Íslands og þegar þetta verður skoðað aðeins betur þá býst ég við að þetta verði fellt niður,“ segir Einar.

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV