Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Verðum að búa okkur undir að eldgosið standi árum saman

Mynd: Sigurður K. Þórisson / RÚV
Í stað þess að tala um að eldgosið á Reykjanesskaga geti staðið í nokkra mánuði verður að huga að stærri mynd - því gosið gæti varað árum saman, segir eldfjallafræðingur. Haldi gosið áfram í áratugi gæti hraunbreiðan náð yfir Grindavík og virkjunina í Svartsengi. 

Ekkert lát er á eldgosinu á Reykjanesskaga og hefur það nú staðið í þrjá mánuði. Ákveðið hefur verið að reyna ekki að sporna gegn því að hraun renni yfir Suðurstrandarveg, en talið er að það geti gerst jafnvel innan hálfs mánaðar. 

„Það sem við þurfum kannski að byrja að hugsa um núna er það að við erum ekki að tala um kannski gos sem verður í einhverja mánuði, heldur hugsanlega gos sem getur verið í einhver ár. Þá þurfum við að fara hugsa dálítið um stóru myndina, stærri myndin og aðra innviði heldur en bara Suðurstrandarveg. Ég tala nú ekki um ef hraunið fer að leita í vesturátt,“ segir Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur.

Þar eru bæði Grindavíkurbær og svo jarðvarmavirkjunina í Svartsengi og vatnsból þar í kring. Starfsmenn HS Orku byrjuðu að skoða möguleg áhrif goss áður en það hófst.

„Þá voru teiknaðar upp margar sviðsmyndir sem við tókum þátt í ásamt almannavörnum og öðrum yfirvöld, þar sem var skoðað hvað gæti gerst,“ segir Jóhann Snorri Sigurbergsson, forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá HS Orku.

„Ef við horfum á það sem myndi vera öfgakenndasta myndin, að ef þetta gos stendur í fimmtíu ár, þá erum við búa til Skjaldbreið. Ef við setjum Skjaldbreið þarna beint ofan á Fagradalsfjallið, þá er auðvelt að draga radíusinn umhverfis og sjá hvað hraunið getur þakið mikið svæði og það er ansi stórt svæði,“ segir Þorvaldur.

„Eitt af því sem við lögðum áherslu á í upphafi var að prófa þessa varnargarða, setja upp þessa varnargarða, sjá hvort þeir virka og hvort við getum veitt hraunstreymi eitthvert annað ef það myndi fara að stefna í áttina og það er ágætis lærdómur sem hefur fengist af því,“ segir Jóhann Snorri.

Norður af virkjuninni og þá fjær gígnum í Fagradalsfjalli eru vatnsból Suðurnesjamanna. 

„Við höfum fylgst með gasmengun og annarri mengun sem gæti komið í vatnsbólin en ekki séð neitt ennþá,“ segir Jóhann Snorri.