
Starfsaðstæður sem enginn á að þurfa að sætta sig við
„Þetta er alveg sláandi,“ segir Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands, um niðurstöðurnar í viðtali í Síðdegisútvarpi Rásar 2.
Alheimsbreyting á starfsumhverfi blaðamanna
„Tölurnar styðja svolítið það sem við höfðum á tilfinningunni. Umhverfið er ekkert sérstaklega vinveitt okkur blaðamönnum, því miður, en þetta er ekkert séríslenskt fyrirbrigði. Eftir að ég tók við sem formaður í apríl hef ég verið að kynna mér það sem er í gangi í löndunum í kringum okkur og þau umræðuefni sem eru í gangi í stéttinni hjá þeim löndum þar sem er tiltölulega mikið fjölmiðlafrelsi, löndunum sem við berum okkur saman við, eins og Bretland, Norðurlöndin og Þýskaland. Og það sem við erum að upplifa er ekki séríslenskt, þetta virðist vera alheimsbreyting,“ segir hún og bendir sérstaklega á þróunina í Bandaríkjunum:
„Þar sem við fylgdumst með hvernig umræðan um fjölmiðla og falsmiðla breyttist í tíð síðasta forseta, Donalds Trump. Það hefur verið talað um að með því hvaða orðalag Donald Trump notaði um fréttamenn, sem voru honum ekki þóknanlegir, hafi verið veitt leyfi fyrir að ljótari orð og meiri árásir voru notaðar gagnvart fréttamönnum víða heim, ekki bara í löndum þar sem fjölmiðlafrelsi er lítið.“
Vanþakklátt starf fréttamannsins
Sigríður Dögg telur að hér á landi veigri fólk sér við að starfa í fréttamennsku: „Þetta er vanþakklátt starf og ekki mikið metið. Það er ekki borin nægileg virðing fyrir þessu starfi, ekki eins mikil hér og í öðrum löndum, maður sér það á umræðunni, á laununum og á ásókn í nám. Það eru miklu færri menntaðir blaðamenn og fréttamenn hér en í löndunum í kring, en svo sér maður líka hvað fólk endist stutt í þessu starfi. Fólk fer allt of fljótt í önnur störf, betur launuð störf og rólegri störf þar sem er minna áreiti, bæði vegna þess hversu mikið álag er á hvern og einn blaðamann, en líka vegna þessara hótana og ógnana sem við sjáum núna svart á hvítu.“
Siðferði blaðamanna dregið í efa
Þá bendir Sigríður Dögg á að blaðamenn séu sífellt sakaðir um að vera drifnir áfram af annarlegum hvötum og siðferði þeirra dregið í efa: „Það er til dæmis eitthvað sem við höfum séð í Samherjamálinu þar sem er verið að grafa undan trúverðugleika fréttamanns. Nærri 60 prósent þeirra sem eru spurðir í könnuninni segjast hafa upplifað þetta á síðustu fimm árum.“
„Ég held að það sé nauðsynlegt að við ræðum þetta áfram. Þetta eru starfsaðstæður sem enginn á að þurfa að sætta sig við. Þetta er eitt af stóru málunum sem við ætlum að fara að berjast fyrir, að bæta starfsumhverfi fréttamanna,“ segir Sigríður Dögg.