Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Segir fjölmiðla sumpart meðvirka í útilokunarmenningu

Mynd: Óðinn Jónsson / Morgunvaktin

Segir fjölmiðla sumpart meðvirka í útilokunarmenningu

21.06.2021 - 15:28

Höfundar

Rúnar Helgi Vignisson, prófessor í ritlist við Háskóla Íslands, segir að fjölmiðlar séu sumir hverjir eins og púkinn á fjósbitanum og kyndi undir útilokunarmenningu.

Rúnar Helgi birti fyrir skemmstu grein í Tímariti Máls og menningar þar sem hann reifar einkenni og afleiðingar þess sem kallað hefur verið útilokunarmenning eða slaufunarmenning, þar sem fólk sem þykir hafa brotið gegn samfélagslegum gildum og hagsmunum þjóðfélagsins er smánað.

Í viðtali við Þröst Helgason, í þættinum Svona er þetta á Rás 1, segir hann að margt beri að hafa í huga þegar kemur að þessum málum. „Þetta er mjög beitt verkfæri, slaufun eða útilokun, og það er auðvelt að meiða sig á beittum verkfærum.“

Hann efast um að almenningur sé einhuga um fyrirbærið og hann hafi hitt fólk víðs vegar um samfélagið sem hafi áhyggjur af afleiðingum þess. „Fólki finnst þetta stundum ganga of langt,“ segir hann. „Þetta er ákveðið eftirlitssamfélag sem hefur orðið til. Við erum með myndavélarnar á lofti þannig að mannhelgin, einkarými manneskjunnar er ekkert endilega virt. Ég held að mörgum sé um og ó yfir þessu.“

Rúnar segist ekki hafa hinn endanlega sannleik um hvernig beri að taka á þessu flókna viðfangsefni. „En það getur alltaf verið að viðkomandi sé ekki hafður fyrir réttri sök og það eru dæmi um það á netinu og það er náttúrulega dýrt. Ég held að það búi í hverri manneskju mikill ótti við það að vera hafður fyrir rangri sök. Það getur haft rosalega afdrifaríkar afleiðingar fyrir einstakling og hann getur misst virðingu sína og virði í samfélaginu. Það er þessi spurning, viljum við að réttlætið sé háð einstökum dyntum, að það sé ekki skoðað ofan í kjölinn og reynt að komast að því hvað nákvæmlega gerðist?“

Í greininni fjallar hann um stöðu og hlutverk fjölmiðla í samhengi við útilokunarmenningu, sem hann segir að vissu leyti meðvirka í þeim efnum. Afætufréttamennsku kallar hann það, þegar miðlar elta uppi krassandi efni á samfélagsmiðlum. „Þeir eru þá eins og púkinn á fjósbitanum og kynda undir. Þannig að þetta er orðið að atvinnugrein, að kynda undir slaufun, það er fullt af fólki í heiminum sem hefur tekjur og atvinnu af þessu, vegna þess að þetta eykur umferðina inn á þessa miðla og þar með sjá fleiri auglýsingarnar og meiri tekjur koma. Þannig að við erum að vissu leyti lent í vítahring.“

Þröstur Helgason ræddi við Rúnar Helga Vignisson um nýlega grein hans í Tímariti Máls og menningar um útilokunarmenningu eða svokallaða slaufun. Einnig er rætt um ritlistarnámið, sem hann leiðir í Háskóla Íslands, hvernig höfundum það skilar og hvernig bókmenntum. 

Tengdar fréttir

Jafnréttismál

Slaufunarmenning og dómstólar götunnar

Innlent

Jákvæðar og neikvæðar hliðar á útilokunarmenningu