Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Lyfjastofnun kærir lækni til lögreglu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Lyfjastofnun hefur kært Guðmund Karl Snæbjörnsson heimilislækni til lögreglu vegna dreifingar á lyfinu Ivermectin.

Guðmundur staðfestir þetta í samtali við fréttastofu, en DV greindi fyrst frá.

Í samtali við fréttastofu segir Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar, að umrætt lyf hafi ekki fengið markaðsleyfi á Íslandi. „Það gilda mjög strangar reglur um dreifingu og sölu lyfja á Íslandi,“ segir Rúna.

Spurð hvort umrætt lyf sé talið hættulegt, eða einfaldlega virki ekki, segist Rúna ekkert geta sagt til um það. „Við höfum ekki einu sinni hugmynd um hvernig þetta er framleitt.“

Hún viðurkennir að mjög sjaldgæft sé að Lyfjastofnun kæri lækna til lögreglu, en vill að öðru leyti ekki tjá sig um málið enda er það nú til rannsóknar hjá lögreglu.

Umræða um markaðsleyfi villandi

Guðmundur segir í samtali við fréttastofu að umræða um markaðsleyfi sé villandi enda séu fjölmörg lyf á svokölluðum undanþágulistum sem reglulega er ávísað til sjúklinga. Það sé ekki til marks um það lyf séu verri en önnur, heldur einfaldlega að ekki hafi svari kostnaði að greiða fyrir markaðsleyfi. Raunar segir hann að það sæti furðu hve oft þurfi að notast við undanþágulista á Íslandi.

Umrætt lyf hefur þegar verið nýtt við öðrum sjúkdómum, svo sem fílaveiki.

Guðmundur skrifaði fyrst upp á lyfið í desember, og þá fyrir sjálfan sig og nokkra ðara lækna. „Við fengum þá lyfseðla samþykkta en máttum síðan ekki skrifa upp á þetta fyrir konurnar okkar og aðra,“ segir Guðmundur og nefnir þar lögfræðinga og alþingismenn sem dæmi. Telur hann að Lyfjastofnun hafi með þessu brotið jafnræðisreglu. 

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV