Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Lítill Janssen-dagur á fimmtudag eða ekkert bólusett

21.06.2021 - 10:25
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Allsendis óvíst er hvort bóluefnið AstraZeneca berst fyrir fimmtudag. Hugsanlega verður lítill Janssen-dagur þá ef eftirspurn er næg en annars engin bólusetning.

Heilbrigðiststarfsmenn sem sinna bólusetningum í faraldrinum meta stöðuna í dag, að sögn Ragnheiðar Óskar Erlendsdóttur yfirmanns hjúkrunar á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Hún gerir ekki ráð fyrir að AstraZeneca berist fyrir fimmtudag eins og búist var við. Gert er ráð fyrir að að minnsta kostir tuttugu þúsund manns verði bólusett þessa viku, tíu þúsund með Pfizer og tíu þúsund með Janssen-bóluefninu. 

Bólusett verður með Janssen á morgun, þriðjudag, og Pfizer á miðvikudag.

Um áttatíu prósent þjóðarinnar hafa fengið að minnsta kosti eina sprautu. Ragnheiður Ósk er ánægð með árangurinn en segir langþráð sumarfrí þeirra fjölmörgu sem unnið hafa við bólusetningarnar í augsýn.

Ólöf Rún Skúladóttir