Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Íslenska pókerlandsliðið heldur á heimsmeistaramót

21.06.2021 - 01:49
Spil sem saman eru Royal flush í póker.
 Mynd: B S K - Freeimages
Íslenska landsliðið í póker tryggði sér á laugardaginn sæti í úrslitum heimsmeistaramótsins sem haldið verður í nóvember næstkomandi. Þetta kemur fram í tilkynningu Pókersambands Íslands í kvöld.

Landsliðið háði sína fyrstu alþjóðlegu viðureign í undankeppni mótsins nú um helgina. Sex manna lið kepptu í undankeppninni í sex liða riðlum.

Íslenska liðið sigraði örugglega í sínum riðli en það atti kappi við lið frá Noregi, Makedóníu, Ítalíu, Króatíu og Eistlandi. Sigurliðið skipa þau  Daníel Pétur Axelsson, Gunnar Árnason, Egill Þorsteinsson, Inga Guðbjartsdóttir, Magnús Valur Böðvarsson og Sævar Ingi Sævarsson. 

Már Wardum, formaður Pókersambandsins, er liðsstjóri og verkefnisstjóri en auk sexmenninganna valdi stjórn sambandsins Einar Þór Einarsson, Garðar Geir Hauksson, Halldór Má Sverrisson og Kristjönu Guðjónsdóttir til þátttöku.

Í tilkynningu Pókersambandsins segir að keppnispóker byggi á svipaðri hugmyndafræði og keppni í Bridge. Öll lið spili sömu hendur úr sömu stöðu og því ráði frammistaða liðsins öll um árangur. 

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV