Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Hvalfjarðargöngin opin að nýju öðru sinni í kvöld

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Umferð hefur verið hleypt um Hvalfjarðargöng að nýju eftir umferðaróhapp sem varð þar á tólfta tímanum.Tvisvar þurfti að loka göngunum í kvöld vegna umferðaróhappa og varðstjóri hjá slökkviliði hvetur ökumenn til aðgátar.

Að sögn varðstjóra hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins rákust tveir bílar saman en tjón varð lítið, engin slys á fólki og héldu ökumenn fljótlega för sinni áfram.

Lögregla, slökkvilið og sjúkralið frá Akranesi og Reykjavík voru send að göngunum. Slökkviliðið á Akranesi annaðist hreinsun á vettvangi eftir óhappið. 

Loka þurfti Hvalfjarðargöngum um hríð fyrr í kvöld þegar þrír bílar skullu þar saman. 

Flytja þurfti fólk úr bílunum á slysadeild til aðhlynningar en talið að meiðsl hafi verið minniháttar. Varðstjóri hjá Slökkviliði Akraness álítur að það megi þakka lágum umferðahraða.

Hann hvetur ökumenn til aðgæslu á vegum enda megi oft búast við þungri umferð nú þegar sumarfrí eru hafin hjá mörgum.