Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Heimsóttu Klepp vegna frétta af slæmum aðbúnaði

Mynd með færslu
Skúli Magnússon, umboðsmaður Alþingis. Mynd: RÚV
Umboðsmaður Alþingis og starfsfólk hans heimsótti á föstudag réttargeðdeild, öryggisgeðdeild og sérstaka endurhæfingardeild á Kleppi í tengslum við svokallað OPCAT eftirlit með frelsissviptum, sem umboðsmaður sinnir. Tilefni heimsóknarinnar var fyrst og fremst fréttaflutningur síðustu vikna af slæmum aðbúnaði á geðdeildum. Tilgangurinn var einnig að fylgja eftir atriðum í skýrslu umboðsmanns um eftirlit með geðdeildum á Kleppi frá árinu 2019.

Fréttastofa RÚV fjallaði um aðbúnað á öryggis- og réttargeðdeild í maí og þar var greint frá því að Embætti landlæknis hefði til skoðunar greinargerð Geðhjálpar með ábendingum fyrrverandi og núverandi starfsmanna um slæman aðbúnað á öryggis- og réttargeðdeild; ofbeldi, lyfjaþvinganir, ógnarstjórnun og mikinn samskiptavanda.

„Við ræddum við stjórnendur, starfsfólk og sjúklinga. Við viljum vera fullviss um að það hafi verið brugðist við ábendingum vegna skýrslu okkar frá 2019, eða að það sé að minnsta kosti unnið að því,“ segir Skúli Magnússon, umboðsmaður Alþingis, í samtali við fréttastofu. Hann býst ekki við að það verði gefin út sérstök skýrsla um heimsóknina: „Ég á frekar von á að málinu verði lokið með bréfi þar sem er farið yfir málið að því marki sem tilefni er til, og að það bréf verði birt opinberlega í einhverju formi,“ segir hann. „Þessi heimsókn var farin á þessar þrjár deildir, réttargeðdeild, öryggisgeðdeild og sérstaka endurhæfingardeild, en fréttaflutningur hefur einnig beinst að geðdeild á Landspítalanum við Hringbraut. Það er í skoðun hvort sé tilefni til frekari heimsókna,“ bætir hann við.

Skúli vill ekki tjá sig um heimsóknina á Klepp að öðru leyti en því að hún hafi gengið vel. „Okkur var tekið mjög vel af stjórnendum, starfsfólki og sjúklingum og höfðum mjög greiðan aðgang að starfsfólki og sjúklingum og öllum þeim upplýsingum sem við óskuðum eftir. En ég vek athygli á því að við vorum fyrst og fremst að kanna aðbúnað og aðstæður og ekki í sömu stellingum og þegar við höfum fengið kvartanir frá sjúklingum,“ segir hann.

Í fyrrnefndri skýrslu um eftirlit umboðsmanns árið 2018, sem kom út árið 2019, segir meðal annars að fullnægjandi lagaheimildir séu ekki til staðar í íslenskri löggjöf til að taka ákvarðanir gagnvart frelsissviptum einstaklingum á heilbrigðisstofnunum sem geta falið í sér inngrip í réttindi sem varin eru í stjórnarskrá og mannréttindasáttmálum. Þar var því beint til spítalans að hann tæki skipulag og starfsemi geðdeildanna til skoðunar og skýrði betur hvaða ákvarðanir eru teknar með hliðsjón af meðferðarsjónarmiðum annars vegar og hvaða ákvarðanir eru teknar með hliðsjón af öryggissjónarmiðum og öðrum sjónarmiðum hins vegar.

Þá sagði að ekki yrði annað séð en að sjúklingar á deildunum þremur á Kleppi byggju við góðan aðbúnað og afþreying, tómstundaaðstaða og endurhæfing væru almennt í góðu lagi. Þó þyrfti að huga að ákveðnum öryggisatriðum í umhverfi sjúklinga og tryggja að mönnun væri næg til að fyrirbyggja að almennir starfsmenn væru látnir sinna störfum heilbrigðisstarfsfólks.