Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Flestir slasast á rafskútum við fyrstu notkun

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Nærri helmingur þeirra sem slasast á rafskútum er undir 18 ára aldri. Flestir slasast þegar þeir nota tækið i fyrsta sinn. 40% slysa fullorðinna á rafskútum er vegna ölvunar.

1500 til 2000 leiguhjól í Reykjavík

Þriðjungur af rafskútslysum í umferðinni verða þegar ökumenn nota tækið í fyrsta sinn. Fjörutíu og fimm prósent þeirra sem slösuðust á rafskútum í fyrrasumar voru undir 18 ára aldri.

Það hefur ekki farið fram hjá neinum að rafskútum á höfuðborgarsvæðinu hefur fjölgað geipilega síðustu ár. Talið er að á vegum leigufyrirtækja séu 1500-2000 hjól í notkun og um 12 prósent heimila á höfuðborgarsvæðinu eiga rafskútur - það eru um 20 þúsund hjól. Um helgina slösuðust tveir notendur rafskúta um miðja nótt og ástæðan gæti verið ölvun.

Kennsla nauðsynleg

VSO ráðgjöf sendi frá sér skýrslu fyrir nokkrum vikum um rafskútur og hvað bæta má í öryggismálum. Skýrslan var gerð fyrir Reykjavíkurborg og Vegagerðina. Einn skýrsluhöfunda er Ragnar Þór Þrastarson.  Hann segir að tvennt þurfi að gerast í öryggismálum.

„Það þarf að kenna fólki að nota rafskúturnar. Rannsóknir hafa sýnt að um þriðjungur af rafskútuslysum má rekja til fyrstu notkunar notenda og svo þarf að fara í endurbætur á gangstéttum og innviðum borgarinnar" segir Ragnar.

Æskilegt að hækka aldurstakmörk

Hvaða mistök gerir fólk þannig að það veldur sér og öðrum slysum?
„Fólk fer óvarlega oft á tíðum. Það er drukkið eða er ekki með hjálma og með hugann við eitthvað allt annað. Mér finnst að það mætti skoða aldurstakmörk á notkuninni. Við sjáum í skýrslunni okkar að 45% þeirra sem slösuðust síðasta sumar voru börn undir 18 ára. Það mætti kannski skoða að hafa sama aldurstakmark á rafskútum og á vespum, þ.e. 13 ára" segir Ragnar Þór Þrastarson.

Leigubann á föstudags- og laugardagskvöldum?

Fjórir af hverjum tíu þeirra fullorðinna ökumanna sem slasast á rafskútum eru ölvaðir. Í skýrslu VSÓ er þeirri hugmynd varpað fram að leyfa ekki rafskútuleigu á föstudags- og laugardagskvöldum vegna hættu á ölvunarakstri.

Óumdeilt er að þessi nýi ferðamáti er umhverfisvænn, en honum fylgja vaxtarverkir og ýmis vandi hefur komið í ljós. Einn er ölvunarakstur. Margir virðast freistast til að leigja hjól eftir að áfengis hefur verið neytt og þá er voðinn vís.

40% fullorðinsslysa vegna ölvunar

Hjalti Már Björnsson  yfirlæknir á bráðamóttöku Landspítalans segir að  
nokkur slys hafi orðið út af þessum nýja samgöngumáta. Nærri 150 voru skráð á brámóttökunni sl. sumar.  „Sem betur fer eru þau langflest minniháttar" segir Hjalti. „Það er þó svolítið um skurði sem þarf að sauma eða beinbrot, en það hafa ekki orðið neinir lífshættulegir áverkar undanfarið.

Það er dálítið áberandi hversu margir sem slasast á rafskútum hafa verið undir áhrifum áfengis. Síðasta sumar þegar við héldum nákvæma skráningu um þessi slys þá reyndust 40% fullorðinna hafa slasast undir áhrifum áfengis".

Tækin ekki vandamálið, heldur áfengisdrykkjan

„Þess vegna er mjög mikilvægt að fólk átti sig á því að þetta eru nokkuð hraðskreið farartæki sem að byggja á því að við höfum jafnvægi og hreyfifærni til að stjórna þeim. Þannig að ég mæli alls ekki með því að nota rafskútur þegar fólk hefur neytt áfengis. Við þurfum líka að átta okkur á því að ef að það verða slys þá eru hjólin eða rafskúturnar ekki vandamálið, heldur áfengisnotkunin" segir Hjalti Már Björnsson.

Í  skýrslu VSO ráðgjafar um rafskútur og umferðaröryggi hér á landi er m.a.  fjallað um ölvunarakstur. Skýrslan var gerð fyrir Reykjavíkurborg og Vegagerðina. Þar er þeim möguleika velt upp að banna leigu á rafskútum á föstudags- og laugardagskvöldum ef reynslan bendir til þess notendur leigi rafskútur undir áhrifum áfengis.

 

kristjas's picture
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV