Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Búist er við að Abiy Ahmed haldi velli í Eþíópíu

epa08842824 (FILE) - The then leader of the 'Oromo Peoples Democratic Organization' (OPDO), now Prime Minister Abiy Ahmed looks on during a news conference in Aba Geda, Ethiopia, 02 November 2017 (reissued 26 November 2020). Ethiopia's prime minister announced on 26 November that the army has been ordered to move on the Tigray regional capital after the end of a 72-hour ultimatum to the region's leaders to surrender.  EPA-EFE/STR
Abiy Ahmed, forsætisráðherra Eþíópíu, segir stjórn sína „beita því valdi sem þörf er á“ í baráttunni gegn vígaferlum þjóðarbrota í landinu.  Mynd: EPA-EFE - EPA
Kosningar til ríkis- og svæðisþinga í Eþíópíu eru hafnar, þær fyrstu frá því að Abiy Ahmed komst til valda. Hann tók við embætti forsætisráðherra í apríl árið 2018 og hlaut friðarverðlaun Nóbels árið eftir, einkum fyrir að koma á friði við nágrannaríkið Erítreu.

Kosningum í landinu var frestað tvisvar, í fyrra sinnið vegna útbreiðslu COVID-19 og hið síðara svo tryggja mætti að hægt yrði að kjósa um allt land.

Ahmed hét því í aðdraganda kosninganna að þær yrðu lausar við þá kúgun sem einkennt hefur kosningar í landinu undanfarið. Mikill öryggisviðbúnaður er um allt land vegna kosninganna.

Búist er við að Velmegunarflokkur Ahmeds fái meirihluta atkvæða og geti því haldið áfram um stjórnartaumana. Þingmenn á ríkisþinginu kjósa forsætisráðherrann og forseta landsins.

Um 38 milljónir eru á kjörskrá en um fimmtungur landsmanna þarf að bíða til 6. september eftir að fá að greiða atkvæði sitt. Það er í héruðum þar sem öryggi þykir ábótavant, átök ríkja milli þjóðarbrota og eins þar sem illa gekk að skipuleggja kosningar í tíma.

Ahmed hefur unnið að margvíslegum umbótum innanlands í Eþíópíu en stjórnartíð hans hefur litast af mannskæðum hernaði í Tígray-héraði. Forsætisráðherrann sendi stjórnarherinn þangað seinni hluta árs 2020 til að stöðva valdabrölt fyrrverandi samherja sinna í stjórn héraðsins.

Þar þurfa íbúar nú að treysta á neyðaraðstoð til að draga fram lífið og grunur er uppi um að stjórnarherinn hafi framið ódæðisverk meðan á hernaðinum hefur staðið. Ekki hefur verið ákveðið hvenær verður kosið í Tigray-héraði.