Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Blikakonur tóku þrjú stig í vonskuveðri á Selfossi

Mynd með færslu
 Mynd: MummiLú - RÚV

Blikakonur tóku þrjú stig í vonskuveðri á Selfossi

21.06.2021 - 22:10
Breiðablik vann Selfoss 4-0 í Pepsi Max deild kvenna í fótbolta í kvöld og tylltu sér þar með á topp deildarinnar. Markasúpa var svo í boði í leik Þróttar og Fylkis sem endaði 4-2 fyrir Fylki.

Mikil rekistefna var um upphaf leiks Breiðabliks og Selfoss vegna slæmra veðurskilyrða á Selfossi en þar var bæði hífandi rok og rigning. Leikurinn hófst á endanum eftir að dómarar höfðu rætt við bæði lið sem vildu spila leikinn. Hann var að vísu ekki spilaður á Jáverk-velli Selfyssinga heldur á gervigrasvelli liðsins þar sem dómarar leiksins voru ekki sáttir við sýnileika línanna á grasvellinum. 

Hvorki veðrið né gervigrasið virtist hafa áhrif á Blika. Agla María Albertsdóttir kom þeim yfir strax á 10. mínútu með góðu skoti og Taylor Ziemer kom Kópavogsliðinu svo í 2-0 með öðru stórskoti á 40. mínútu. Þrátt fyrir góð færi Selfyssinga í seinni hálfleik tókst heimakonum ekki að koma boltanum í netið. Það gerðu Karítas Tómasdóttir og Birta Georgsdóttir hins vegar fyrir Blika og lokatölur 4-0.  

Þróttur og Fylkir mættust á Eimskipsvellinum í Laugardalnum á sama tíma í sex marka leik. Fylkir var fyrir leikinn í næst neðsta sæti deildarinnar en Þróttur í því fjórða. 

Shaelan Brown skoraði fyrir Þrótt á 5. mínútu en Bryndís Arna Níelsdóttir jafnaði fyrir Fylki 7 mínútum síðar. Liðin skiptust svo á færum allt þar til á 43. mínútu þegar Þórdís Elva Ágústsdóttir kom Fylki yfir. Bryndís Arna bætti svo við marki snemma í síðari hálfleik, 3-1 og sjálfsmark Jelenu Kujundzic setti stöðuna í 4-1. Ólöf Sigríður Kristinsdóttir skoraði fyrir Þrótt áður en yfir lauk og niðurstaðan annar sigur Fylkis í röð, 4-2. 

Eftir sjöundu umferðina eru Blikakonur því komnar á toppinn með 15 stig, Valur er í öðru sæti með 14 stig eftir jafntefli við Þór/KA fyrr í kvöld og Selfyssingar falla niður í það þriðja með sín 13 stig. Með sínum sigri lyftu Fylkiskonur sér upp í áttunda sæti en Þróttarar eru í því fimmta. 

Tengdar fréttir

Íslenski fótboltinn

Stjarnan vann ÍBV - Jafnt á Hlíðarenda