Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Þórdís hafði betur í Norðvestur - Haraldur annar

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttur varaformaður Sjálfstæðisflokksins og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra varð efst í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi  með 1.347 atkvæði í fyrsta sætið. Haraldur Benediktsson sem var oddviti flokksins í kosningunum 2017 lenti í öðru sæti..

Lokatölur voru kynntar nú á öðrum tímanum. Haraldur Benediktsson þingmaður er í öðru sæti með 1.061 atkvæði, í fyrsta til annað sæti. Hann var í þriðja sæti eftir fyrstu tölur. Þau sóttust bæði eftir því að leiða lista sjálfstæðismanna í kjördæminu. 

Haraldur Benediktsson segir í samtali við fréttastofu að hann standi við fyrri orð sín um að ekki geti verið gott fyr­ir nýj­an odd­vita að hafa þann gamla í aft­ur­sæt­inu, meira geti hann ekki sagt á þessari stundu.

Hann eigi eftir að sjá sundurliðun á niðurstöðunum og ræða við nýjan oddvita. Hann segist þó ætla að byrja á því að óska Þórdísi til hamingju, leggja sig og mjólka kýrnar sínar á býlinu Vestri-Reyn undir Akrafjalli í fyrramálið.

Haraldur segir að að það veki athygli sína að þrír af vesturlandi sunnanverðu séu í fjórum efstu sætunum sem honum finnst ekki heppilegasta niðurstaðan upp á breidd og dreifingu.

Hann segir niðurstöðuna nú í höndum kjörnefndar en að miðað við fyrstu tölur finnist honum niðurstaðan óvænt. Í þriðja sæti með 1.190 atkvæði í fyrsta til þriðja sæti er Teitur Björn Einarsson.

I fjórða sæti með 879 atkvæði í fyrsta til fjórða sæti er Sigríður Elín Sigurðardóttir. Kjörsókn var mjög góð, að því er Sandra Margrét Sigurjónsdóttir, formaður kjörnefndar segir í samtali við fréttastofu.

Síðast þegar prófkjör fór fram hjá Sjálfstæðisflokknum í kjördæminu greiddu 1.516 atkvæði en nú 2.289. Gild atkvæði voru 2.232.