Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sköpunarferlið að baki hversdagslegra hluta

Mynd: Kristín Þorkelsdóttir / Hönnunarsafn Íslands

Sköpunarferlið að baki hversdagslegra hluta

20.06.2021 - 08:00

Höfundar

Augun ferðast á milli tvívíðra verka og þrívíðra og maður fær tilfinningu fyrir því hvernig abstrakt hugmynd verður að teikningu, sem verður að grafísku verki, sem verður að þrívíðum prentgrip, segir Ólöf Gerður Sigfúsdóttir, gagnrýnandi, um sýningu á verkum Kristínar Þorkelsdóttur.

Ólöf Gerður Sigfúsdóttir skrifar:

Í Hönnunarsafni Íslands stendur nú yfir forvitnileg yfirlitssýning á verkum eins afkastamesta og merkasta hönnuðar landsins, Kristínar Þorkelsdóttur. Nafn hennar er ef til vill ekki á allra vörum en höfundarverk hennar leynist víðar en margan grunar. Kristín hefur á löngum og farsælum ferli sínum hannað verk sem orðin eru svo samofin hversdagslífi okkar að við tökum ekki lengur eftir þeim. Næst þegar þú notar smjör ofan á brauðið skaltu gefa gaum að umbúðunum sem umlykja það, og ef þú borgar fyrir smjörið með reiðufé skaltu staldra við og horfa á listaverkið sem hver peningaseðill er. Eða þegar kemur að því að þú þurfir að drepa tímann milli flugferða skaltu taka þér stund í að fletta í gegnum vegabréfið þitt, því hver síða er uppfull af grafískum smáatriðum sem þú hefur sennilega aldrei veitt athygli.

Sýningin, sem einfaldlega ber yfirskriftina „Kristín Þorkelsdóttir“ gerir ferli Kristínar góð skil og gefur heildstætt yfirlit yfir verk hennar og vinnuferli. Eftir hana liggur urmull verka síðan ferill hennar hófst á sjötta áratugnum, og því má segja að sú saga sem sýningin rekur um hennar verk segi einnig sögu fagsins, eða hvernig auglýsingateiknun breyttist úr handteiknuðum skissum yfir í grafíska hönnun með þeim stafrænu tólum sem einkenna hana í dag. Verkin hafa verið dregin saman í nokkur þemu, sem hjálpar gestinum að ná utan um svo afkastamikinn starfsferil og gefur til kynna hversu fjölbreytt starf grafískra hönnuða er. Við fáum að kynnast Kristínu sem merkjahönnuði, bókahönnuði, umbúðahönnuði, auglýsingahönnuði og peningaseðlahönnuði, en ekki síst fáum við að kynnast henni sem brautryðjanda og kvenfyrirmynd í bransanum þar sem hún stofnaði eitt stærsta auglýsingafyrirtæki á landinu um árabil.

Þegar inn í sýningarsalinn á efri hæð Hönnunarsafnsins er komið heyrum við óminn af gömlu Þykkvabæjarauglýsingunni, snakkinu sem allir eldri en fertugir kannast sennilega við, og svo taka við mismunandi sýningarstöðvar með ólíkum þemum sem þræða sig inn L-laga salinn. Sýningarstjórarnir þrír, þau Birna Geirfinnsdóttir, dósent í grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands og annar eigandi hönnunarstofunnar Studio Studio, Bryndís Björgvinsdóttir, þjóðfræðingur og fagstjóri fræða við hönnunardeild Listaháskóla Íslands, og Arnar Freyr Guðmundsson, grafískur hönnuður og hinn eigandi hönnunarstofunnar Studio Studio, hafa hér unnið mikla rannsóknarvinnu við undirbúning sýningarinnar, sem endurspeglast vel í uppsetningunni. Hvert þema er dregið saman með hnitmiðuðum og upplýsandi texta á veggjum og hver sýningarstöð hefur sinn afgerandi lit, sem gefur þemunum svipsterka og einkennandi umgjörð þannig að gesturinn áttar sig alltaf vel á því hvað hann er að horfa á, í hvaða kapítula hann er staddur. Þannig rekur maður sig í gegnum sýninguna milli sýningarborða á gólfi og texta á veggjum, augun ferðast á milli tvívíðra verka og þrívíðra og maður fær tilfinningu fyrir því hvernig abstrakt hugmynd verður að teikningu, sem verður að grafísku verki, sem verður að þrívíðum prentgrip, sem verður svo hér að sýningargrip og vonandi safneignargrip í varðveislu Hönnunarsafnsins að sýningunni lokinni.

Sýningarstjórunum tekst vel að afhjúpa sköpunarferli verkanna með því að setja fram skissur, tilraunir og prufur, sem margar hverjar eru með handskrift og glósum Kristínar á, sem aftur veitir innsýn í persónulega nálgun hennar til starfsins. Áhugavert er að staldra við merkjavegginn, þar sem lesa má um hugmyndafræðina sem liggur að baki kunnuglegum merkjum eins og Mjólkusamsölunnar, Vegagerðarinnar, BYKO og ýmissa annarra fyrirtækja eða stofnana. Þá er sérstaklega skemmtilegt að staldra við peningaseðlaborðið, þar sem tilfinningin er fremur að vera stödd á kvikmyndasetti en hönnunarstofu. Augljóst er að Kristín og samstarfsfélagi hennar í hönnun íslensku peningaseðlaraðarinnar, Stephen Fairbairn, hafa ekki dáið ráðalaus frammi fyrir því að þurfa teikna fólk úr fortíðinni sem enginn veit hvernig leit út. Þarna eru margar forvitnilegar skissur sem hafa verið fengnar að láni frá Seðlabanka Íslands, sem sýna glöggt hvernig svo fáguð listaverk eins og hversdagslegir peningaseðlar verða til og hvernig þeir eru framleiddir. Þá er það vel til fundið hjá sýningarstjórunum að setja upp tvö myndlistarverk eftir Kristínu hvort í sínum enda sýningarinnar, til að minna á að ferill hennar hófst í myndlistinni og hvernig myndlistarhugsun hennar litaði verk hennar allan hennar starfsferil.

Útgáfa er væntanleg í tengslum við sýninguna, þar sem rannsóknum sýningarstjóranna á framlagi Kristínar verða gerð skil. Það er miður að ekki hafi tekist að gefa út bókina nú við opnun sýningarinnar, en útgáfan stendur eftir sem varanleg heimild um höfundarverk Kristínar því þegar sýningin sjálf verður tekin niður tvístrast verkin aftur þegar þeim verður skilað til sinna eigenda. Þá á samhengið, sem sýningarstjórarnir hafa búið sýningunni og sú leið sem þau hafa valið, eftir að halda sér í höfundarverki hönnuðarins en ekki hverfa þegar sýningunni lýkur í upphafi næsta árs. Það ber því merki um metnað safnsins og sýningarstjóranna að hér standi til að gefa út varanlegan prentgrip um verk og störf Kristínar.

Sýningin vekur okkur til umhugsunar um að allt sem framleitt er hefur verið hannað á einhverjum tímapunkti, og að baki hvers verks liggur flókin og vandleg hugsun, hvort sem það eru fyrirtækjamerki eða umbúðir utan um hvaðeina sem við kaupum okkur í neyslusamfélagi dagsins í dag, eða peningarnir sem við notum til að kaupa það með.

Tengdar fréttir

Pistlar

Framlag listanna til fræðilegrar orðræðu

Pistlar

Kaðlar, hnútar og nótir í miðju kafi

Pistlar

Listrænt, lýðræðislegt og skipulagslegt afrek

Pistlar

„Þykk“ sýning á viðeigandi stað