Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ólga á Spáni vegna mögulegra náðana

20.06.2021 - 17:56
epa09282237 Spanish Prime Minister, Pedro Sanchez, takes part during the closing day of the Circle of Economy Forum meetings in Barcelona, Spain, 18 June 2021. Sanchez announced that an Extraordinary Cabinet Meeting will be held 24 June 2021 in order to approve the decision of withdrawing the mandatory use of masks outdoors.  EPA-EFE/QUIQUE GARCIA
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Búist er við að spænska ríkisstjórnin náði tólf katalónska sjálfstæðissinna í vikunni. Tólfmenningarnir voru dæmdir árið 2019 fyrir hlut sinn í sjálfstæðisbaráttu Katalóníu.

Forsætisráðherra spænsku samsteypustjórnarinnar, Pedro Sanchez, segir að náðanirnar séu nauðsynlegar til þess að laga það sem er að í stjórnmálum landsins, og til þess að samfélagið geti litið til bjartrar framtíðar.

Búist er við að ríkisstjórnin samþykki náðanir Katalónanna næsta fimmtudag. Sjálfstæðissinnarnir tólf voru dæmdir í allt að þrettán ára fangelsi fyrir aðgerðir sínar í tengslum við ólöglega atkvæðagreiðslu um sjálfstæði Katalóníu í október 2017.

Pólitískir andstæðingar Sanchez eru þó andsnúnir þessum hugmyndum stjórnarinnar. Sanchez hafði áður talað gegn því að sjálfstæðissinnarnir yrðu náðaðir. Telja andstæðingar hans náðunina ekkert nema tilraun til að tryggja áframhaldandi stuðning katalónska ERC flokksins á þingi. Stjórn Sanchez er minnihlutastjórn og til að halda velli þarf stuðning flokksins.

Ekki eru aðeins andstæðingar Sanchez á þingi mótfallnir áformum um náðun. Í nýlegri könnun El Mundo sagðist 61 prósent aðspurðra mótfallin náðun tólfmenninganna.

Hæstiréttur Spánar hefur einnig blandað sér í umræðuna og sagði í skýrslu frá dómstólnum að mennirnir tólf hefðu hlotið réttlátan dóm og hefðu ekki sýnt snefil af iðrun eða eftirsjá.
 

Andri Magnús Eysteinsson