Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Milwaukee Bucks áfram í undanúrslit eftir framlengingu

epa09287652 Milwaukee Bucks forward Giannis Antetokounmpo (R) of Greece looks to put up a shot past a defending Brooklyn Nets forward Kevin Durant (L) in the second half of game seven of the 2021 NBA Eastern Conference Semi-Finals basketball playoff series between the Milwaukee Bucks and the Brooklyn Nets at the Barclays Center in Brooklyn, New York, USA, 19 June 2021.  EPA-EFE/JASON SZENES SHUTTERSTOCK OUT
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Milwaukee Bucks áfram í undanúrslit eftir framlengingu

20.06.2021 - 10:09
Milwaukee Bucks komu sér í nótt í undanúrslit NBA deildarinnar eftir sigur á Brooklyn Nets, 115-111 í framlengdum leik. Andstæðingarnir Giannis Anteokounmpo og Kevin Durant skráðu sig í sögubækurnar með stigasöfnun sinni.

Bucks höfðu lent undir í einvíginu gegn Nets en náðu að jafna metin 3-3 og leikurinn í nótt því hreinn úrslitaleikur um hvort liðið færi í undanúrslit. Leikurinn var æsispennandi og eftir venjulegan leiktíma var staðan jöfn, 109-109 og því þurfti að fara í framlengingu. 

Kevin Durant, leikmaður Nets, var hársbreidd frá því að tryggja sínu liði sigurinn í venjulegum leiktíma þegar hann skaut niður að því er virtist þriggja stiga körfu í stöðunni 109-107 fyrir Bucks. Durant hafði hins vegar verið með eina tá á þriggja stiga línunni og fékk þar af leiðandi aðeins 2 stig fyrir skotið sem þýddi að staðan varð jöfn, 109-109.

Leikurinn var fyrsti oddaleikurinn í 15 ár sem fer í framlengingu en þar urðu Bucks hlutskarpari og skoruðu 6 stig á meðan Nets skoruðu aðeins 2. Lokatölur í leiknum voru því 115-111.

„Ég hef aldrei spilað í leik eins og þessum. Við vorum heppnir að táin hans var á línunni,“ sagði Khris Middleton, leikmaður Bucks, eftir sigurinn. 

48 stig Durant dugðu Nets ekki til sigurs en það er mesti stigafjöldi sem leikmaður hefur skorað í oddaleik í sögu NBA deildarinnar. Andstæðingur hans í liði Bucks, Giannis Antetokounmpo skoraði 40 stig og félagarnir urðu þar með þriðja parið af mótherjum til að skora 40 stig eða fleiri í oddaleik. Fyrir höfðu LeBron James og Paul Pierce gert það árið 2008 og Sam Jones og Oscar Robertsson árið 1963. 

 

Milwaukee Bucks munu annað hvort mæta liði Atlanta Hawks eða Philadelphia 76ers í úrslitaleik austurdeildarinnar. Philadelphia 76ers náðu að jafna einvígið gegn Atlanta Hawks 3-3 eftir 104-99 sigur á föstudagskvöld. Oddaleikur í einvíginu verður spilaður í kvöld.

Í úrslitaleik vesturdeildarinnar mætast Los Angeles Clippers og Phoenix Suns en Clippers er í fyrsta skipti í sögu félagsins komið í undanúrslit NBA deildarinnar. Siguvegararnir í hvorri deild fyrir sig munu svo mætast í úrslitaeinvíginu um NBA meistaratitilinn.