Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Mikill og stöðugur straumur var í Nátthaga frá miðnætti

Mynd með færslu
 Mynd: Veðurstofa Íslands
Mikill og stöðugur hraunflaumur var framan af nóttu yfir vestari varnargarðinn í sunnanverðum Meradölum og niður í Nátthaga. Snemma á sjötta tímanum tók að draga úr flæðinu og nú er allt með kyrrum kjörum. Náttúrvárfræðingur segir alltaf erfitt að spá um hve lengi hraunstraumurinn hegði sér með ákveðnum hætti.

Í gærkvöld tók hraun að renna eftir opinni rás frá gígnum niður í átt að Nátthaga. Glóandi hraunið fór yfir garðinn á miðnætti og eftir það rann talsvert magn hrauns niður í Nátthaga. Nú hefur hraunstraumurinn þangað nær alveg stöðvast.

Einar Hjörleifsson náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands segir í samtali við fréttastofu að hraunið komi úr gígnum í gusum og að það leiti sér alltaf farvegs.

Einar sagði í nótt að erfitt væri að meta hve lengi hraunstreymið héldi áfram niður í Nátthaga. Draga tók úr streyminu á sjötta tímanum og nú streymir ekkert hraun niður í Nátthaga. 

Fréttin var uppfærð klukkan 8:29.