Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Lögregla veitti eftirför í Grafarvogi

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í ýmsu að snúast í gærkvöldi og í nótt, mikið var um veisluhöld í gærkvöldi en fjölmargir útskrifuðust úr Háskólum landsins í gær. Veisluhöldin virðast þó hafa farið vel fram því ekki er á þau minnst í dagbókarfærslu lögreglu.

Skömmu fyrir klukkan 20 í gærkvöldi hóf lögregla eftirför eftir að ökumaður bifreiðar hafði ekki stöðvað ferð sína eftir merki frá lögreglu. Bifreiðinni var ekið eftir grasbölum og gangstéttum Grafarvogs og reyndi ökumaðurinn, ung kona, að hlaupa frá vettvangi eftir að hún hafði loks stöðvað bílinn. Konan var handtekin og er grunuð um akstur undir áhrifum auk ýmissa umferðarlagabrota.

Þá var 17 ára ökumaður stöðvaður vegna hraðaaksturs á Reykjanesbraut þar sem hámarkshraði er 80 km/klst. Hraði bílsins mældist þó 130 km/klst. Tilkynning var send til Barnaverndar auk þess sem að móður drengsins var gert viðvart. 

Þá fékk lögregla einnig tilkynningu um líkamsárás í miðbænum á öðrum tímanum í nótt. Tveir menn höfðu þá slegið þann þriðja ítrekað í höfuðið og horfið af vettvangi á hlaupum. Maðurinn var fluttur á Bráðadeild til aðhlynningar.
 

 

Andri Magnús Eysteinsson