Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Lögregla skaut mann sem ók niður hóp hjólreiðamanna

Mynd með færslu
 Mynd: Show Low Police Department
Lögregla í Arizona skaut og særði mann sem ók pallbíl sínum á hóp hjólreiðamanna í borginni Show Low í gær. Fjórir slösuðust mjög alvarlega, tveir eitthvað minna en samkvæmt upplýsingum lögreglu gátu nokkrir úr hópnum leitað sjálfir á slysadeild.

Hjólreiðamennirnir tóku þátt í góðgerðarferð sem ætlað er að safna fé fyrir skóla á svæðinu og eru allir eldri en 55 ára.

Atvikið átti sér stað snemma morguns að staðartíma í gær en breska ríkisútvarpið BBC greinir frá því að sá sem ók á hjólafólkið sé hvítur karlmaður á fertugsaldri sem hafi flúið af vettvangi.

Lögreglumenn veittu honum eftirför hátt í tveggja kílómetra leið að byggingavöruverslun þar sem hann var skotinn. Maðurinn lifði af en tvísýnt er um ástand hans.

Nú er bæði verið að rannsaka ástæður þess að maðurinn ók á hjólreiðafólkið og eins það að lögreglumenn sáu sig knúna til að skjóta hann.  

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV