Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Líklega frestast seinni bólusetning með AstraZeneca

20.06.2021 - 12:00
Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Farið er að hilla undir lok fjöldabólusetninga víða um land enda helmingur þjóðarinnar fullbólusettur og þriðjungur til viðbótar kominn með fyrri skammtinn. Líklega verða tafir á afhendingu síðustu sendingarinnar af bóluefni AstraZeneca. 

Tæplega fimmtíu þúsund skammtar

Í vikunni er von á rúmlega 46 þúsund skömmtum af bóluefni til landsins, 23 þúsund skömmtum af bóluefni Pfizer, tæplega 3000 skömmtum frá Moderna og svo var gert ráð fyrir rúmlega 20 þúsund skömmtum af bóluefni AstraZeneca. 

Þrír bólusetningardagar á höfuðborgarsvæðinu

Nú eiga allir árgangar á höfuðborgarsvæðinu að vera komnir með boð í bólusetningu. Gert er ráð fyrir þremur bólusetningardögum í vikunni. Tíu árgangar eiga að fá Janssen á þriðjudag og á miðvikudag verða fjórir árgangar boðaðir í seinni sprautuna af Pfizer. Þá fá ungmenni fædd 2005 fyrri bólusetningu. Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu, hvetur foreldra til að minna börn sín á. Eftir hádegi þessa daga geta þau sem eiga eldra boð í Janssen og Pfizer komið og þegið sprautu á meðan birgðir endast. 

Ekki útlit fyrir seinni bólusetningu með AstraZeneca í vikunni

Á fimmtudag stóð til að bólusetja með AstraZeneca, klára seinni bólusetningu hjá öllum á höfuðborgarsvæðinu. Ragnheiður segir ósennilegt að efnið berist í tæka tíð, Astra-dagurinn frestist líklega um viku og til skoðunar að boða aðra hópa í Janssen í staðinn. Á heimasíðu Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu segir að allt AstraZeneca bóluefni sem berst verði notað til að gefa seinni skammtinn. Þau sem fengu boð í fyrri skammt af AstraZeneca sem þau gátu ekki nýtt sér fái boð í annað efni.

 

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV

 

Óljóst með opna daga

Seinni bólusetningum á að ljúka um miðjan júlí. Ragnheiður segir óljóst hvort verði af opnum dögum í ágúst, það ráðist af eftirspurn, eitthvað verði þó til af bóluefni fram á haustið, til dæmis til að bólusetja ófrískar konur eða aðra sem ekki hafa getað þegið bólusetningu. 

Góður gangur hefur verið í bólusetningum á landsbyggðinni. Búið að boða vel flesta þó ekki hafi allir boðaðir mætt. Á heilsugæslu Suðurnesja er búið að bólusetja þau sem hafa þegið boð um bólusetningu og á Austurlandi voru öll fædd 2005 og fyrr búin að fá boð strax í byrjun júní. Útlit er fyrir að á Vesturlandi náist að klára fyrri bólusetningar að mestu leyti í þessari viku að því gefnu að þangað berist efni frá AstraZeneca, það yrði þá efni sem þegar er komið til landsins. 

Opinn dagur á Norðulandi

Á Norðurlandi verða endurbólusetningar með efni frá Pfizer og AstraZeneca, á miðvikudag verður svo haldinn opinn dagur þar sem allir sem áður hafa fengið boð en ekki komist geta fengið bóluefni frá Pfizer. Áður gátu einungis ungmenni sem eru orðin 16 ára fengið bólusetningu, en í þessari viku verður breyting þar á, árið gildir og því geta öll ungmenni fædd 2005 mætt. 

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV